Kjarafélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga (KVH) hefur skilað umsögn til Alþingis um frumvarp til laga um breytingar á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða nr. 129/1997.
Í umsögn sinni leggur félagið áherslu á að frumvarpið í núverandi mynd geti haft neikvæð áhrif á lífeyriskerfið og hagkerfið til lengri tíma. Sérstaklega er bent á að fyrirhuguð breyting dragi úr fjárhagslegum hvötum einstaklinga til að snúa aftur til vinnu eftir veikindi og endurhæfingu og gæti leitt til minni verðmætasköpunar í þjóðarbúinu.
KVH bendir einnig á að nauðsynlegt sé að gera ítarlegri úttektir á öllum áhrifum frumvarpsins áður en það verður afgreitt, þar sem áhrif þess á lífeyrissjóði og ríkissjóð gætu orðið umtalsverð.
Umsögnina í heild má lesa á vef Alþingis.