Kjarafélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga endurnýjar samning við Samtök atvinnulífsins

Kjarafélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga (KVH) ásamt öðrum aðildarfélögum BHM hefur endurnýjað kjarasamning við Samtök atvinnulífsins (SA). Samningurinn, sem tók gildi 1. maí 2025, markar áfanga í kjarabaráttu háskólamanna á almennum vinnumarkaði og felur í sér ýmsar framfarir fyrir félagsmenn.Helstu breytingar fyrir félagsmenn KVH eru eftirfarandi:

Launaviðtal
Samningurinn kveður á um að starfsmaður sem fær ekki að lágmarki kjarasamningsbundnar launahækkanir á almennum vinnumarkaði á rétt á viðtali þar sem sú ákvörðun er rökstudd. Viðtal skal fara fram innan mánaðar frá því að ósk kemur fram.

Bættur orlofsréttur
Orlofsréttur hefur verið aukinn og þá sérstaklega fyrir þá sem eru að koma inn á vinnumarkað og þá sem hafa langan starfsaldur hjá sama fyrirtæki.

  • Eftir sex mánaða starf hjá sama fyrirtæki á starfsmaður nú rétt á orlofi í 25 dögum. Þetta er mikil stytting á ávinnsluhraða en áður tók það fimm ár að ávinna sér rétt á 25 orlofsdögum.  
  • Eftir 4 ár í sama fyrirtæki eða 10 ár í sömu starfsgrein skal starfsmaður hafa rétt á 28 daga orlofi.
  • Eftir 5 ára starf í sömu starfsgrein hækkar orlofsréttur starfsmanns í 26 daga og samanborið við áður 25 daga.
  • Eftir 6 ár í sama fyrirtæki skal starfsmaður hafa 30 daga orlof. Þetta er stytting úr tíu árum í sex ár til að ná hámarks orlofsrétti hjá sama vinnuveitanda, sem er mikil framför fyrir félagsmenn.
  • Áunnin 30 daga orlofsréttur hjá fyrri atvinnurekanda endurnýjast eftir tveggja ára starf hjá nýju fyrirtæki en áður tók það starfsmann þrjú ár að fá sama rétt.

Veikindaréttur barna
Réttur til fjarveru vegna aðhlynningar sjúkum börnum nær nú einnig til barna á aldrinum 13-16 ára í alvarlegum tilvikum sem leiða til sjúkrahúsvistar í a.m.k. einn dag. Áður náði rétturinn eingöngu til 13 ára aldurs. Eftir 6 mánaða starf er rétturinn 12 dagar á hverjum 12 mánuðum. 

Aukinn stuðningur við fagþróun og starfsmenntun

Í bókun með samningnum koma fram fyrirætlanir um að endurskipuleggja sjóði um starfsmenntun og starfsþróun. Það  ætti að leiða til meiri möguleika starfsmanna á að efla hæfni sína og þekkingu svo þeir geti betur tekist á við síbreytilegt starfsumhverfi.