Lífeyrissjóðir
Öllum launamönnum og þeim sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi er rétt og skylt að tryggja sér lífeyrisréttindi með aðild að lífeyrissjóði frá og með 16 ára til 70 ára aldurs, skv. lögum nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.
Lífeyriskerfið er samtryggingakerfi og ávinningur af því að greiða í lífeyrissjóð er margs konar:
1) Ellilífeyrir til æviloka
2) Örorku- og barnalífeyrir ef sjóðsfélagi missir starfsgetu og verður fyrir sannanlegum tekjumissi vegna veikinda eða slyss
3) Maka- og barnalífeyrir við fráfall sjóðsfélaga
4) Möguleika á hagstæðum lánum frá lífeyrissjóði
Aðild að lífeyrissjóði, greiðslu iðgjalds og skiptingu iðgjalds milli launamanns og launagreiðanda fer eftir þeim kjarasamningi sem ákvarðar lágmarkskjör í hlutaðeigandi starfsgrein eða sérlögum ef við á.
Sjóðfélagi greiðir ávallt 4%, en launagreiðandi mismikið. Þannig greiðir launagreiðandi (oftast opinberir) 11,5% í LSR-A deild, 8% í LSR-B deild, 12% í Brú – LSS A deild, 11,5% í Brú – LSS V deild. Á almennum vinnumarkaðinum greiddi vinnuveitandi 10% í almenna lífeyrissjóði, en frá 1. júlí 2018 varð það framlag 11,5%.
Tilgreind séreign
Frá 1. júlí 2017 er sjóðfélögum fjölda lífeyrissjóða á almennum vinnumarkaði heimilt að ráðstafa hluta af skylduiðgjaldi í svokallaða tilgreinda séreign. Um er að ræða 2% af launum frá 1. júlí 2017 og 3,5% frá 1. júlí 2018. Sjóðfélagar geta valið sér vörsluaðila til að ávaxta tilgreindu séreignina, en hafa þarf samband við lífeyrissjóðina til að kynna sér betur þessa ráðstöfun.
Viðbótarlífeyrissparnaður
Það er valkvætt fyrir launþega að leggja viðbótarframlag 2% í séreignasjóð og samkvæmt kjarasamningum skal þá launagreiðandi greiða 2% mótframlag. Með lagabreytingum sem taka gildi þann 01.07.2014 hefur Alþingi heimilað á ný þann kost að leggja að hámarki 4% af launum í viðbótarlífeyrissparnað og draga frá skattskyldum tekjum, en þann 1. janúar 2012 var hámarksframlag lækkað tímabundið í 2%. Mótframlag launagreiðanda verður þó 2% eins og áður.
Ólíkt öðrum lífeyrissparnaði, erfist séreignarsparnaður til lögerfingja við fráfall sjóðfélaga. Um er að ræða viðbótarsparnað sem er undanþeginn fjármagnstekjuskatti og eignaskatti og gerir sjóðfélaga kleift að fresta skattgreiðslu til efri ára þegar persónuafslátturinn nýtist betur. Inneignin auðveldar sjóðfélaga að draga úr vinnu áður en venjubundnum ellilífeyrisaldri er náð og/eða hækka lífeyri fyrstu árin eftir að taka ellilífeyris hefst.
Viðbótarlífeyrissparnaður er stundum kallaður þriðja stoðin í lífeyriskerfi landsmanna, til viðbótar við almannatryggingar og skyldulífeyrissparnað.
Helstu upplýsingar um lífeyrismál og lífeyrissjóði er m.a. að finna á vefsíðu Landssamtök lífeyrissjóða, Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins , Brú – lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga og annarra lífeyrissjóða, auk laga nr. 129/1997. Hjá bönkum og ýmsum fjármálafyrirtækjum má einnig finna upplýsingar um séreignasparnað.
Ítarefni
- Lög nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða
- Lög nr. 1/1997 um lífeyrisjóð starfsmanna ríkisins
- Á upplýsingavef um lífeyrismál er að finna mikið af greinargóðum upplýsingum um lífeyrismál.
- Umfjöllun LSR um 95 ára reglu.