Kaup og kjör > Hlunnindi > Dagpeningar
Dagpeningar
Dagpeningar vegna ferðalaga á vegum vinnuveitanda
Dagpeningar á ferðalögum
Starfsmenn sem ferðast á vegum vinnuveitanda eiga rétt á dagpeningagreiðslum til að standa straum af gisti- og fæðiskostnaði, bæði innanlands og erlendis. Um rétt til dagpeninga fer samkvæmt ákvæðum kjarasamninga og ákvörðunum Ferðakostnaðarnefndar ríkisins, sem skipuð er fulltrúum BHM, BSRB og fjármála- og efnahagsráðuneytisins.
Dagpeningar innanlands
Samkvæmt auglýsingu nr. 1/2025 frá Fjármála- og efnahagsráðuneytinu gilda eftirfarandi dagpeningaupphæðir frá og með 1. júní 2025:
- Gisting og fæði í einn sólarhring: 55.900 kr.
- Gisting í einn sólarhring: 38.600 kr.
- Fæði hvern heilan dag (minnst 10 tíma ferðalag): 17.300 kr.
- Fæði í hálfan dag (minnst 6 tíma ferðalag): 8.650 kr.
Kostnaður vegna ferðalaga innanlands greiðist almennt gegn framvísun reikninga, enda fylgi með fullnægjandi gögn. Heimilt er þó að greiða gisti- og fæðiskostnað með dagpeningum ef um það er samið, eða ef ekki er unnt að leggja fram reikninga.
Dagpeningar innanlands eru ákvarðaðir út frá reglulegri verðkönnun á algengum gististöðum, bæði á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni. Fæðiskostnaður er reiknaður miðað við breytingar á viðeigandi vísitölu sem gefin er út af Hagstofu Íslands.
Farangurstryggingar:
Starfsmenn í opinberum erindum njóta farangurstrygginga samkvæmt reglugerð nr. 281/1988.
Dagpeningar erlendis
Ferðakostnaður vegna vinnuferða erlendis greiðist með dagpeningum sem ákveðnir eru af Ferðakostnaðarnefnd ríkisins sjá auglýsingu nr. 1/2025. Með dagpeningum skal standa straum af öllum venjulegum ferðatengdum kostnaði að undanskildum fargjöldum, svo sem gistingu, fæði, samgöngum innanlands og minni háttar persónulegum útgjöldum.
Fyrirtæki á almennum vinnumarkaði sem ekki hafa sett sér eigin reglur um ferðakostnað skulu miða við ákvörðun Ferðakostnaðarnefndar samkvæmt grein 7.1 í samningi aðildarfélaga BHM og SA.
Upplýsingar um fjárhæðir dagpeninga vegna ferða bæði innanlands og erlendis eru birtar á vef stjórnarráðsins Gengi SDR (Special Drawing Rights), sem erlendir dagpeningar byggjast oft á, er aðgengilegt á vef Seðlabanka Íslands. Einnig er þar að finna reiknivél sem auðveldar útreikninga.
Skattaleg meðferð dagpeninga
Dagpeningar teljast ekki skattskyldir ef öll eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:
- Dagpeningarnir voru greiddir vegna tilfallandi ferða á vegum launagreiðanda.
- Ferðirnar voru utan venjulegs vinnustaðar.
- Starfsmaður hefur sannanlega greitt ferðatengdan kostnað samkvæmt reikningi og getur sýnt fram á það.
- Í bókhaldi launagreiðanda og launamanns liggja fyrir gögn um tilefni ferðar, fjölda dvalardaga, fjárhæð dagpeninga og kennitölu starfsmanns.
Mikilvægt:
Leyfilegur frádráttur samkvæmt skattmati ríkisskattstjóra getur verið lægri en þau dagpeningagildi sem Ferðakostnaðarnefnd ákveður. Séu greiddir dagpeningar hærri en heimilt er að draga frá skv. skattmati, ber að standa skil á staðgreiðslu af mismuninum.
Nánari upplýsingar má finna á vef Skattsins.