Á fjölmennum fundi starfsmanna Fiskistofu, þar sem fyrirhugaður flutningur stofnunarinnar var ræddur voru mættir fulltrúar þeirra stéttarfélaga sem starfsmenn stofnunarinnar tilheyra. Þungt hljóð var í fólki en meðal umræðuefna voru réttindi fólks til biðlauna, eftirlauna og uppsagnarfrests. Ástæður ákvörðunarinnar voru ofarlega í hugum fólks en þær virðast ekki ljósar. Þær aðferðir sem viðhafðar hafa verið við ákvarðanatökuna voru harðlega gagnrýndar.
Fundur starfsmanna Fiskistofu 1. júlí 2014 ályktar:
„Starfsmenn Fiskistofu og stéttarfélög þeirra gagnrýna harðlega ákvörðun um flutning Fiskistofu til Akureyrar. Fyrirhugaður flutningur er í raun lítið annað en dulbúin hópuppsögn fjölda reynslumikilla starfsmanna stofnunarinnar. Flutningurinn mun ekki einungis kippa fótunum undan starfsmönnum og fjölskyldum þeirra heldur mun einnig öll sú reynsla og þekking sem orðið hefur til hjá stofnuninni frá upphafi, tapast að miklu leyti. Það hafi nú þegar sýnt sig, bæði hér á landi og hjá nágrannaþjóðum okkar, að það tekur mörg ár að byggja slíka þekkingu upp að nýju. Starfsmenn mótmæla þessum gamaldags og harðneskjulegu aðferðum, þar sem fólki er skákað á milli kjördæmi í refskák stjórnmálanna í fálmkenndri viðleitni stjórnvalda til að fjölga störfum á landsbyggðinni. Bent hefur verið á raunhæfari og markvissari leiðir til þess, m.a. með því að staðsetja ný verkefni eða deildir úti á landi svo þær geti vaxið þar frá byrjun. Starfsmenn og stéttarfélög þeirra skora á stjórnvöld að endurskoða þessi áform sín og setja fram heilsteypta framtíðarsýn í þróun opinberrar stjórnsýslu.“