Skyldur starfsmanna
Segja má að það sé óskráð meginregla vinnuréttar að vinnuveitandi hafi stjórnunarrétt, en í því felast valdheimildir til að stýra og stjórna starfsemi innan þeirra marka sem lög og kjarasamningar gera ráð fyrir. Stjórnunarheimildir þessar lúta m.a. að ákvörðunum um skipulag vinnunnar, hvaða verk skuli vinna, hver skuli vinna þau, með hvaða hætti, hvenær og hvar. Ákvarðanir sem teknar eru dags daglega um störf og verksvið einstakra starfsmanna rúmast jafnan innan þeirra heimilda sem felast í reglunni um „stjórnunarrétt vinnuveitanda“.
Í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996 er í 4.kafla kveðið á um skyldur starfsmanna. Þar er komið inná fjölmarga þætti, m.a. þessa: skyldu til að rækja starf sitt vel og forðast að aðhafast nokkuð sem geti varpað rýrð á starfið eða starfsgreinina; skyldu til að hlýða lögmætum fyrirskipunum yfirmanna um starf sitt; skyldu til að koma stundvíslega til starfa; skyldu til að vinna yfirvinnu í samræmi við það sem kjarasamningar leyfa; skyldu til að hlíta breytingum á störfum sínum og verksviði; skyldu til að gæta þagmælsku um atriði sem starfsmaður fær vitneskju um í starfi og leynt skulu fara samkvæmt lögum, fyrirmælum yfirmanns eða eðli máls.
Í kjarasamningum við Samband íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg er sérstakur kafli um réttindi og skyldur, þar sem komið er inná nokkra sambærilega þætti og að ofan greinir, svo sem þeim sem varða breytingar á störfum.
Ekki er um viðlíka þætti að ræða í kjarasamningi við SA, en segja má að á almenna vinnumarkaðinum gildi reglan um stjórnunarrétt vinnuveitanda, auk lagaákvæða sem tengjast almennum skyldum, eða sérstökum ákvæðum sem starfsmenn kunna að undirgangast í ráðningarsamningum, svo sem um trúnaðarskyldu vegna samkeppnisaðila o.fl.