Jafnrétti og jafnræði
Jafnrétti og jafnræði er sameiginlegur hagur allra. Það á jafnt við um vinnumarkað sem önnur svið þjóðlífsins. Í því felst meðal annars að allir njóti jafnra möguleika til menntunar, starfs, starfsframa, launa, ævitekna, réttinda og lífeyriskjara.
Kjarasamningar gera ráð fyrir jafnræði. Almenn ákvæði þeirra eiga jafnt við um alla félagsmenn. Hins vegar eru ýmis réttindaákvæði mismunandi, svo sem þau sem tengd eru lífaldri og starfsaldri. Í kjarasamningi KVH og SA segir meðal annars að gæta skuli ákvæða jafnréttislaga við launaákvarðanir. Þar er vísað til þess að greiða skuli jöfn laun fyrir sömu eða jafn verðmæt störf, en með jöfnum launum er átt við að laun skulu ákveðin innan fyrirtækis á sama hátt fyrir einstaklinga, konur og karla.
Félagsmenn á almennum vinnumarkaði semja um laun sín í ráðningarsamningum, en hjá ríkisstofnunum er samið um verðmæti starfa í stofnanasamningum og hjá sveitarfélögum í kjarasamningum. Laun eru jafnframt einstaklingsbundin og taka því einnig mið af mörgum málefnalegum þáttum svo sem frammistöðu og árangri, viðbótarmenntun og hæfni, mismunandi álagi og öðrum persónubundnum þáttum sem til þessa má jafna.
Ýmis ákvæði er snerta jafnrétti og jafnræði má finna í lögum, svo sem lög nr.10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna, lög nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda og Stjórnsýslulög nr. 37/1993.
Sú krafa er almenn að vinnumarkaður eigi að vera fjölskylduvænn og vinnuaðstæður sveigjanlegar. Allir eiga að njóta jafnrar stöðu á vinnumarkaði óháð fjölskylduaðstæðum, uppruna eða öðrum sambærilegum þáttum, auk þess að horfa til fjölskyldábyrgðar hvers og eins. Margvísleg lög og stjórnvaldsaðgerðir hafa komið hér til, svo sem þær sem snerta fæðingar- og foreldraorlof. Í kjarasamningum má einnig finna ákvæði svo sem um rétt starfsmanna til launa í fjarveru vegna veikinda barna, um takmörkum á því hvað hægt er að krefjast mikillar yfirvinnu af starfsmönnum og fleira. Slík atriði ásamt ýmsum öðrum í kjarasamningum og starfsmannastefnu fyrirtækja stuðla að fjölskylduvænum vinnumarkaði.