Saga KVH

 

Kjarafélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga  var stofnað  1990 og varð um leið eitt af aðildarfélögum Bandalags háskólamanna.   Í raun á KVH  sér þó mun lengri forsögu sem er samofin félagsstarfi og samtökum  þeirra háskólamanna sem hafa menntað sig á sviði viðskipta- og hagfræða.

Fyrsta félagið á þessari vegferð var Hagfræðingafélag Íslands, sem stofnað var 1938, en tilgangur þess var m.a. að efla félagslyndi meðal hagfræðinga og álit vísindalegrar hagfræðimenntunar.   Félag viðskiptafræðinga var stofnað árið 1946 og markmið þess var m.a. að afla félagsmönnum lögverndaðra réttinda,  vera félagsmönnum til aðstoðar um útvegun atvinnu og stuðla að bættum kjörum.  Það félag varð svo eitt af stofnaðilum BHM árið 1958. Þessi tvö félög sem áttu flest sameiginlegt runnu saman í Hagfræðafélag Íslands árið 1959, en tilgangur þess var einkum að efla hagfræði og skyldar fræðigreinar og vinna að sameiginlegum hagsmunum félagasmanna.

Lögum þess félags og nafni var síðan breytt árið 1972 í Félag viðskiptafræðinga og hagfræðinga (FVH), sem enn er starfandi  þótt í breyttri mynd sé.   Frá byrjun voru starfandi tvær fastanefndir í FVH, fræðslunefnd og kjaranefnd, en í kjölfar nýrra laga um samningsrétt BHM gagnvart ríkinu, var stofnuð sérstök kjaradeild ríkisstarfsmanna innan FVH 1973.

Það var svo í desember 1990 að gengið var formlega frá stofnun sjálfstæðs stéttarfélags, Kjarafélags viðskiptafræðinga og hagfræðinga. Á aðalfundi  FVH  í maí árið 1991 var lögum þess félags einnig breytt og þar með lauk formlega öllum tengslum milli FVH og hins nýstofnaða stéttarfélags KVH.

Árið 2000 tók KVH upp samstarf við fjögur önnur BHM-félög um rekstur sameiginlegrar þjónustuskrifstofu, sem fékk nafnið Huggarður. Þeirri samvinnu lauk í árslok 2012 og frá 1. janúar 2013 hefur KVH rekið eigin skrifstofu í húskynnum BHM að Borgartúni 6, gömlu Rúgbrauðsgerðinni, sem svo er nefnd.

Formenn KVH frá upphafi hafa verið þessir:

1990-1991           Magnús S. Magnússon

1991-1993           Björn Bjarnason

1993-1995           Hörður Jónsson

1995-1997           Haraldur Þorbjörnsson

1997-1999           Óskar Th. Traustason

1999-2001           Guðjón Viðar Valdimarsson

2001-2005           Stefán Aðalsteinsson

2005-2006           Helga Jóhannesdóttir

2006-2007           Heiða Björk Jósefsdóttir

2007-2011           Ragnheiður Ragnarsdóttir

2011-2019           Birgir Guðjónsson

2019-2021           Ársæll Baldursson

2021- ….               Stefán Þór Björnsson

 

Share This