Kjarafélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga
Kjarafélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga (KVH) er stéttarfélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga. Félagið sér um að gera kjarasamninga fyrir hönd félagsmanna, bæði á almennum og opinberum vinnumarkaði. Það vinnur að bættum kjörum félagsmanna, gætir réttinda þeirra og er óháð starfsvettvangi, vinnuveitanda eða ráðningarformi.
Alls eru greiðandi félagsmenn nú tæplega 2.000. Um 55% starfar á almennum vinnumarkaði en 45% hjá hinu opinbera.
KVH hefur það að markmiði að félagsmenn þess njóti bestu mögulegrar þjónustu og hagsmunagæslu á hverjum tíma. KVH er aðili að Bandalagi háskólamanna.
Aðsetur KVH og BHM er að Borgartúni 6, Reykjavík.
Á skrifstofu KVH er svarað í síma og veitt ráðgjöf er hér segir:
Mánudaga – fimmtudaga 13:00-16:00.
Föstudaga 9:00-12:00.
Fyrir almennar heimsóknir er hægt að bóka ráðgjöf og fjarfundi í síma 595-5140 eða: kvh@bhm.is
Efst á baugi
Sjóðfélagar í Styrktarsjóði eða Sjúkrasjóði BHM athugið!
Umsóknir og gögn sem miðast við almanaksárið 2013 þurfa að berast/vera póstlögð í síðasta lagi 9. desember næstkomandi. Sama gildir um gögn vegna umsókna sem þegar hafa borist.
Styrkumsóknir eru afgreiddar í hverjum mánuði. Umsóknir og fullnægjandi gögn sem berast í síðasta lagi 9. hvers mánaðar eru greiddar út 24.-26. sama mánaðar.
Umsóknir eru sendar inn með rafrænum hætti í gegnum heimasíðu. Nálgast má úthlutunarreglur á heimasvæði sjóðanna.
Nánari upplýsingar gefa fulltrúar sjóðanna:
Ingunn Þorsteinsdóttir vegna Styrktarsjóðs (opinberir starfsmenn): Sími 595-5111
Gissur Kolbeinsson vegna Sjúkrasjóðs (starfsmenn á almennum markaði): Sími 595-5120
Launaþróun og kaupmáttur
Kaupmáttur launa féll mikið í kjölfar hrunsins. Mældur út frá launavístölu er hann nú svipaður og hann var í lok árs 2005. Kaupmátturinn var hæstur um mitt ár 2007 en féll svo um u.þ.b. 16% fram til vorsins 2010. Síðan hefur kaupmáttaraukning verið jöfn og stígandi með rúmlega 2% hraða, sem er eilítið minni aukning og varð á árunum eftir 2002.
Sé litið á þróun síðustu tveggja ára sést greinilega að töluverðar launahækkanir á þessu tímabili hafa ekki náð að auka kaupmáttinn að neinu marki. Þannig hækkuðu laun um 19,5% frá upphafi ársins 2011 fram til júní 2013, en kaupmáttur einungis um 5%. (Heimild: Hagstofa Íslands og Hagsjá LÍ)
Atvinnuleitendum fækkar
Samkvæmt upplýsingum Vinnumálastofnunar nam atvinnuleysi í júní síðast liðnum 3,9% á landinu öllu og hefur það ekki verið minna síðan fyrir hrun eða í árslok 2008. Atvinnuleysi meðal karla var 3,3%, en 4,6% meðal kvenna. Á höfuðborgarsvæðinu reyndist atvinnuleysi karla vera 3,9%, en kvenna 5,2%.
Þegar horft er til menntunar þá er um fimmtungur atvinnuleitenda eða 21% með háskólanám eða sérskólanám á háskólastigi. Ekki liggja fyrir tölur um fjölda viðskiptafræðinga og hagfræðinga sem eru atvinnulausir, enda dreifast þeir á nokkur stéttarfélög, auk þess sem einhver hluti þeirra er utan félaga. Hins vegar greiddu 12 atvinnuleitendur félagsgjöld til KVH í júní s.l. og er það rétt rúmlega 1 % af greiðandi félagsmönnum.
Vísitala launa 2012
Samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands hækkuðu laun á íslenskum vinnumarkaði um 7,4% milli áranna 2011 og 2012, miðað við ársmeðaltal vísitölu launa. Þá hækkuðu laun á almennum vinnumarkaði um 7,8% að meðaltali, en laun opinberra starfsmanna um 6,6%.
Í kjarasamningum aðila vinnumarkaðarins frá árinu 2011 var kveðið á um hækkun launa um 3,5% á fyrsta ársfjórðungi 2012. Í sömu samningum var kveðið á um 50.000 króna eingreiðslu sem kom til hækkunar á vísitölu launa á öðrum ársfjórðungi 2011. Áhrif vegna eingreiðslu, orlofs- og desemberuppbótar gætir í vísitölu launa árið 2012.
Vísitala launa endurspeglar þróun reglulegra launa og er gefin út ársfjórðungslega. Þetta og fleira má lesa um í Hagtíðindum, Hagstofu Íslands, nánar tiltekið undir Laun, tekjur og vinnumarkaður.
Félagsaðild
Í boði er meðal annars:
- Fæðingarstyrkir og sjúkradagpeningar
- Starfs- og endurmenntunarstyrkir
- Sumarbústaðir og orlofshúsnæði, innanlands og erlendis
Námsmannaaðild
Námsmenn í viðskiptafræði eða hagfræði á háskólastigi, sem lokið hafa a.m.k. 60 einingum (ECTS) geta sótt um námsmannaaðild að KVH (NKVH). Slík aðild felur m.a. í sér:
- Aðgang að upplýsingum og leiðbeiningum félagsins er snerta störf og kjör á vinnumarkaði
- Aðstoð við gerð ráðningarsamninga
- Aðgang að námskeiðum/málstofum KVH á ári hverju. Efni námskeiðanna eru fjölbreytt og höfða til námsmanna
- Gjöf frá KVH þegar að námi lýkur