Kjarafélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga
Kjarafélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga (KVH) er stéttarfélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga. Félagið sér um að gera kjarasamninga fyrir hönd félagsmanna, bæði á almennum og opinberum vinnumarkaði. Það vinnur að bættum kjörum félagsmanna, gætir réttinda þeirra og er óháð starfsvettvangi, vinnuveitanda eða ráðningarformi.
Alls eru greiðandi félagsmenn nú tæplega 2.000. Um 55% starfar á almennum vinnumarkaði en 45% hjá hinu opinbera.
KVH hefur það að markmiði að félagsmenn þess njóti bestu mögulegrar þjónustu og hagsmunagæslu á hverjum tíma. KVH er aðili að Bandalagi háskólamanna.
Aðsetur KVH og BHM er að Borgartúni 6, Reykjavík.
Á skrifstofu KVH er svarað í síma og veitt ráðgjöf er hér segir:
Mánudaga – fimmtudaga 13:00-16:00.
Föstudaga 9:00-12:00.
Fyrir almennar heimsóknir er hægt að bóka ráðgjöf og fjarfundi í síma 595-5140 eða: kvh@bhm.is
Efst á baugi
Þróun launa og kaupmáttar 2005 – 2013
Hagstofan hefur birt nýjar tölur um launaþróun eftir launþegahópum. Þar kemur m.a. fram að frá fyrsta ársfjórðungi 2005 til fyrsta ársfjórðungs 2013 hafa regluleg laun á íslenskum vinnumarkaði hækkað um 74,6%, þar af 76,8% á almennum vinnumarkaði, 69,4% hjá ríkisstarfsmönnum og 68,3% hjá starfsmönnum sveitarfélaga.
Kaupmáttur reglulegra launa yfir sama tímabil hefur aukist um 2,8%, en misjafnlega þó. Á almennum vinnumarkaði jókst kaupmáttur um 4,1%, hjá ríkisstarfsmönnum um 0,3% og hjá starfsmönnum sveitarfélaga um 0,9%.
Það einkennir kjarasamninga undanfarinna ára að meiri almennar hækkanir hafa orðið á lægstu launatöxtum. Þetta má skoða nánar á vef Hagstofu Íslands.
Atvinnuleysi á vinnumarkaði
Fróðlegt er að skoða samanburð á atvinnuleysi milli landa, en hlutfall atvinnuleysis gefur vísbendingar um ástand á vinnumarkaði og efnahag þjóða. Í nýjum tölum frá EUROSTAT kemur fram að meðaltals atvinnuleysi í 28 Evrópusambandsríkjum var 12,1% nú í júlí s.l. sem þýðir að um 26,6 milljón manna var án atvinnu í þessum löndum. Þegar sambærilegum tölum er bætt við fyrir Noreg og Ísland, kemur í ljós að hlutfall atvinnuleysis er lægst í Noregi (3,4%), Austurríki (4,8%), Þýzkalandi (5,3%) og Íslandi (5,5%), en lang hæst í Grikklandi (27,6%) og Spáni (26,3%).
Kjarakönnun BHM: niðurstöður
Í dag voru kynntar niðurstöður kjarakönnunar BHM, sem gerð var í vor og náði til félagsmanna í öllum aðildarfélögum BHM. Könnunin var mjög yfirgripsmikil og þar er að finna miklar og gagnlegar upplýsingar fyrir félögin og félagsmenn, með hliðsjón af fjölmörgum þáttum m.a. kyni og staðsetningu á vinnumarkaði. Meðal-heildarlaun viðskiptafræðinga og hagfræðinga reyndust hafa verið um 612 þúsund krónur í febrúar mánuði s.l., en meðal-heildarlaun allra BHM félaga var hins vegar um 522 þúsund krónur. Stjórn KVH mun á næstu vikum rýna þessar niðurstöður og nýta við undirbúning komandi kjarasamninga. Niðurstöður könnunarinnar og heildarskýrslu má nálgast á vefsíðu BHM.
Félagsmenn sem eru tímabundið atvinnuleitendur
Stjórn KVH hefur ákveðið að greiða framlag fyrir atvinnulausa félagsmenn í sameiginlega sjóði BHM. Þetta á við þá félagsmenn sem eru atvinnuleitendur en greiða sjálfir félagsgjöld til KVH, gegnum Vinnumálastofnun. Sjóðirnir sem um ræðir eru Sjúkrasjóður BHM, Styrktarsjóður BHM, Starfsmenntunarsjóður BHM og Orlofssjóður BHM. Með þessu móti viðhalda félagsmenn réttindum sínum í sjóðunum, meðan þeir eru tímabundið í atvinnuleit og greiða félagsgjöld.
Félagsaðild
Í boði er meðal annars:
- Fæðingarstyrkir og sjúkradagpeningar
- Starfs- og endurmenntunarstyrkir
- Sumarbústaðir og orlofshúsnæði, innanlands og erlendis
Námsmannaaðild
Námsmenn í viðskiptafræði eða hagfræði á háskólastigi, sem lokið hafa a.m.k. 60 einingum (ECTS) geta sótt um námsmannaaðild að KVH (NKVH). Slík aðild felur m.a. í sér:
- Aðgang að upplýsingum og leiðbeiningum félagsins er snerta störf og kjör á vinnumarkaði
- Aðstoð við gerð ráðningarsamninga
- Aðgang að námskeiðum/málstofum KVH á ári hverju. Efni námskeiðanna eru fjölbreytt og höfða til námsmanna
- Gjöf frá KVH þegar að námi lýkur