HVER GÆTIR ÞINNA HAGSMUNA?

HVER GÆTIR ÞINNA HAGSMUNA?

Kjarafélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga

Kjarafélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga (KVH) er stéttarfélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga. Félagið sér um að gera kjarasamninga fyrir hönd félagsmanna, bæði á almennum og opinberum vinnumarkaði.  Það vinnur að bættum kjörum félagsmanna, gætir réttinda þeirra og er óháð starfsvettvangi, vinnuveitanda eða ráðningarformi.

Alls eru greiðandi félagsmenn nú tæplega 2.000. Um 55% starfar á almennum vinnumarkaði en 45% hjá hinu opinbera.

KVH hefur það að markmiði að félagsmenn þess njóti bestu mögulegrar þjónustu og hagsmunagæslu á hverjum tíma. KVH er aðili að Bandalagi háskólamanna.

Aðsetur KVH og BHM er að Borgartúni 6, Reykjavík.

Á skrifstofu KVH er svarað í síma og veitt ráðgjöf er hér segir:

Mánudaga – fimmtudaga 13:00-16:00.

Föstudaga 9:00-12:00.

Fyrir almennar heimsóknir er hægt að bóka ráðgjöf og fjarfundi í síma 595-5140 eða: kvh@bhm.is

Efst á baugi


Orlofshús um páska og orlofskostir erlendis

Nú er hægt að senda inn umsóknir um leigu á orlofshúsum/íbúðum BHM  innanlands um næstu páska og einnig umsóknir vegna orlofsíbúða/húsa erlendis. Athygli félagsmanna er vakin á því að umsóknarfrestur um orlofshús um páska er til miðnættis 1. mars n.k., en umsóknarfrestur fyrir íbúðir erlendis næsta sumar er til miðnættis 13. febrúar n.k.   Allar nánari upplýsingar er að finna á vefsíðu Orlofssjóðs BHM.  Árlegt orlofsblað Orlofssjóðs BHM er í lokafrágangi og verður sent félagsmönnum innan tíðar.

Menntun og samkeppnishæf kjör

Í grein á vefsíðu BHM í tilefni áramóta segir formaður BHM, Guðlaug Kristjánsdóttir m.a.: „Stjórnvöld og atvinnurekendur tala nú mjög fyrir kjarasamningum sem skuli undirbyggja hagvöxt til framtíðar. Eina trúverðuga atvinnustefnan að slíkum markmiðum er að leggja áherslu á menntun, setja störf sem grundvallast á þekkingu í fyrsta sæti og virkja þannig auðlind sem sannarlega er sjálfbær og eykst frekar ef á hana er gengið, hugvitið. Höfum í huga að þar sem menntað fólk sest að og fær störf við hæfi munu sprotar vaxa og nýjungar fæðast en það eru forsendur fyrir hagvexti.

Til þess að slík stefna gangi upp þarf Ísland að vera ákjósanlegur starfsvettvangur fyrir háskólamenntað fólk. Að mörgu leyti er Ísland spennandi en einum þætti er þó verulega ábótavant og það eru kjörin. Eftir kjaraskerðingu undanfarinna ára er ljóst að þau þarf að bæta svo um munar til þess að tryggja samkeppnishæfni Íslands og forsendur fyrir hagvexti til framtíðar. Þar þarf að leiðrétta þær skerðingar sem orðið hafa og síðan að tryggja eðlilega kaupmáttaraukningu.“

Hátíðakveðjur

Kjarafélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga sendir félagsmönnum sínum um land allt bestu jóla og nýárskveðjur, og óskir um farsæld á komandi ári.

Námslán og skuldir heimila

Formaður BHM sendi í dag, 3. des., eftirfarandi tilkynningu til fjölmiðla:

„BHM, heildasamtök háskólamenntaðra á vinnumarkaði, leggur áherslu á að skuldir vegna námslána séu jafnan metnar til jafns við aðrar skuldir heimila þegar mótaðar eru aðgerðir til að létta skuldir landsmanna. Í tilefni af kynningu á aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar um höfuðstólslækkun húsnæðislána setur BHM fram eftirfarandi kröfur:

1. Að fyrirhuguðum tekjum ríkissjóðs af skatti á fjármálafyrirtæki verði jafnframt varið til niðurgreiðslu námslána, enda samanstandi verðtryggðar skuldir heimilanna af húsnæðis- og námslánum. Þannig sé tryggt að forsendubrestur vegna verðtryggingar sem stjórnvöld hyggjast leiðrétta nái til allra sem fyrir honum urðu.

2. Að skattfrelsi séreignasparnaðar vegna niðurgreiðslu húsnæðislána nái jafnframt til námslána, enda sé í báðum tilfellum um að ræða verðtryggða lántöku vegna langtímafjárfestingar.“

Forsíða

Félagsaðild

Í boði er meðal annars:

  • Fæðingarstyrkir og sjúkradagpeningar
  • Starfs- og endurmenntunarstyrkir
  • Sumarbústaðir og orlofshúsnæði, innanlands og erlendis

Námsmannaaðild

Námsmenn í viðskiptafræði eða hagfræði á háskólastigi, sem lokið hafa a.m.k. 60 einingum (ECTS) geta sótt um námsmannaaðild að KVH (NKVH). Slík aðild felur m.a. í sér:

  • Aðgang að upplýsingum og leiðbeiningum félagsins er snerta störf og kjör á vinnumarkaði
  • Aðstoð við gerð ráðningarsamninga
  • Aðgang að námskeiðum/málstofum KVH á ári hverju. Efni námskeiðanna eru fjölbreytt og höfða til námsmanna
  • Gjöf frá KVH þegar að námi lýkur