Kjarafélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga
Kjarafélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga (KVH) er stéttarfélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga. Félagið sér um að gera kjarasamninga fyrir hönd félagsmanna, bæði á almennum og opinberum vinnumarkaði. Það vinnur að bættum kjörum félagsmanna, gætir réttinda þeirra og er óháð starfsvettvangi, vinnuveitanda eða ráðningarformi.
Alls eru greiðandi félagsmenn nú tæplega 2.000. Um 55% starfar á almennum vinnumarkaði en 45% hjá hinu opinbera.
KVH hefur það að markmiði að félagsmenn þess njóti bestu mögulegrar þjónustu og hagsmunagæslu á hverjum tíma. KVH er aðili að Bandalagi háskólamanna.
Aðsetur KVH og BHM er að Borgartúni 6, Reykjavík.
Á skrifstofu KVH er svarað í síma og veitt ráðgjöf er hér segir:
Mánudaga – fimmtudaga 13:00-16:00.
Föstudaga 9:00-12:00.
Fyrir almennar heimsóknir er hægt að bóka ráðgjöf og fjarfundi í síma 595-5140 eða: kvh@bhm.is
Efst á baugi
Aðalfundur KVH
Aðalfundur KVH var haldinn 19. mars s.l. Auk hefðbundinna aðalfundarstarfa var kosin ný stjórn félagsins. Hana skipa eftirtaldir: Birgir Guðjónsson, formaður, Ragnheiður Ragnarsdóttir, ritari, Ársæll Baldursson, gjaldkeri, og meðstjórnendur eru þau Helga Sigurðardóttir og Stefán Þór Björnsson. Varastjórn skipa þau Helgi Þór Jónasson, Hjálmar Kjartansson og Sigríður Svavarsdóttir.
Skýrslu stjórnar KVH fyrir starfsárið 2014-2015 er að finna á vefsíðu KVH.
Munum eftir kjarakönnuninni !
Félagsmenn KVH sem enn eiga eftir að svara hinni árlegu kjarakönnun BHM og aðildarfélaganna, eru eindregið hvattir til að taka þátt. Kjarahluti könnunarinnar er nú bæði styttri og einfaldari en í fyrra. Þátttakan er mikilvægt framlag félagsmanna og eftir því sem gagnasöfnun vindur fram aukast möguleikar BHM og aðildarfélaga til þjónustu við félagsmenn. Það er rannsóknarfyrirtækið Maskína sem sér um framkvæmd könnunarinnar og rétt er að ítreka að farið verður með öll gögn sem trúnaðarupplýsingar.
Orlofssjóður BHM
Sjóðfélagar Orlofssjóðs BHM athugið –
Á miðnætti á morgun, þann 31. mars, er síðasti dagurinn sem hægt er að senda inn umsókn vegna umsókna um íbúðir og hús innanlands á tímabilinu frá 12. júní til 21. ágúst 2015.
Hægt er að bóka tímabilin frá 5. til 12. júní og 21. til 29. ágúst 2015 frá og með 24. apríl kl. 15, þau tímabil þarf ekki að sækja um heldur gildir reglan fyrstur bókar fyrstur fær.
Sótt er um á bókunarvef OBHM
Hægt er að kynna sér betur þá orlofskosti sem í boði eru og þær reglur sem gilda við úthlutun í Orlofsblaði OBHM Orlofsblaðið 2015
Á Bókunarvefnum er einnig hægt að skrá sig á póstlista sjóðsins.
Námsmannaaðild KVH
KVH mun bjóða félagsmönnum sínum sem hafa námsmannaaðild upp á námskeið, miðvikudaginn 8. apríl næstkomandi, þar sem farið verður yfir punkta sem byggja upp ímynd (personal branding) í atvinnuleit.
Fyrirlesari verður Silja Jóhannesdóttir sem er ráðgjafi hjá Capacent og hefur mikla reynslu af þessum málum. Jafnframt mun Karen Ósk Pétursdóttir, verkefnastjóri KVH, fjalla um hvað þarf að hafa í huga þegar samið er um laun og kjör í fyrsta sinn þegar gerður er ráðningarsamningur og tenging þess við félagsaðild, kjarasamninga og lög.
Námskeiðið er opið fyrir alla félagsmenn KVH með námsmannaaðild sem hafa áhuga á að læra betur á atvinnuleit.
Tími: Miðvikudaginn 8. apríl kl. 17 – 20
Staðsetning: Borgartún 6, 3 hæð, salur Ásbrú
Þeir sem áhuga hafa á námskeiðinu þurfa að staðfesta þátttöku sína með því að senda tölvupóst á kvh@bhm.is eða karen@bhm.is.
Félagsaðild
Í boði er meðal annars:
- Fæðingarstyrkir og sjúkradagpeningar
- Starfs- og endurmenntunarstyrkir
- Sumarbústaðir og orlofshúsnæði, innanlands og erlendis
Námsmannaaðild
Námsmenn í viðskiptafræði eða hagfræði á háskólastigi, sem lokið hafa a.m.k. 60 einingum (ECTS) geta sótt um námsmannaaðild að KVH (NKVH). Slík aðild felur m.a. í sér:
- Aðgang að upplýsingum og leiðbeiningum félagsins er snerta störf og kjör á vinnumarkaði
- Aðstoð við gerð ráðningarsamninga
- Aðgang að námskeiðum/málstofum KVH á ári hverju. Efni námskeiðanna eru fjölbreytt og höfða til námsmanna
- Gjöf frá KVH þegar að námi lýkur