HVER GÆTIR ÞINNA HAGSMUNA?

HVER GÆTIR ÞINNA HAGSMUNA?

Kjarafélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga

Kjarafélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga (KVH) er stéttarfélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga. Félagið sér um að gera kjarasamninga fyrir hönd félagsmanna, bæði á almennum og opinberum vinnumarkaði.  Það vinnur að bættum kjörum félagsmanna, gætir réttinda þeirra og er óháð starfsvettvangi, vinnuveitanda eða ráðningarformi.

Alls eru greiðandi félagsmenn nú tæplega 2.000. Um 55% starfar á almennum vinnumarkaði en 45% hjá hinu opinbera.

KVH hefur það að markmiði að félagsmenn þess njóti bestu mögulegrar þjónustu og hagsmunagæslu á hverjum tíma. KVH er aðili að Bandalagi háskólamanna.

Aðsetur KVH og BHM er að Borgartúni 6, Reykjavík.

Á skrifstofu KVH er svarað í síma og veitt ráðgjöf er hér segir:

Mánudaga – fimmtudaga 13:00-16:00.

Föstudaga 9:00-12:00.

Fyrir almennar heimsóknir er hægt að bóka ráðgjöf og fjarfundi í síma 595-5140 eða: kvh@bhm.is

Efst á baugi


Óskað eftir fundi með ráðherra

Í ljósi þeirrar alvarlegu stöðu sem nú er uppi í kjarasamningaviðræðum KVH og samninganefndar ríkisins, hefur KVH óskað eftir fundi með fjármálaráðherra hið fyrsta, til að gera honum grein fyrir alvarleika máls og sjónarmiðum félagsins. Beðið er viðbragða ráðuneytisins.

Ályktun félagsfundar KVH

Á fjölmennum fundi félagsmanna Kjarafélags viðskiptafræðinga og hagfræðinga, er starfa hjá ríkinu, og sem haldinn var í hádeginu í dag, mánudaginn 14. september, á Hilton Reykjavík Nordica, var eftirfarandi ályktun samþykkt samhljóða:

„Kjarafélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga krefst þess að ríkið gangi nú þegar til samninga við KVH, en kjarasamningur hefur nú verið laus í rúmlega hálft ár.

Fyrir liggja bæði ítarlegar tillögur KVH og niðurstaða Gerðardóms, sem kvað upp úrskurð sinn 14. ágúst s.l. um laun og forsendur launabreytinga mikils fjölda háskólamanna sem starfar hjá ríkinu.

Afturvirkar launabreytingar hafa þegar tekið gildi hjá þeim háskólamönnum sem heyra undir Gerðardóm og vinna í mörgum tilfellum sambærileg störf og félagsmenn KVH hjá ríkinu.

Hingað til hafa hugmyndir samninganefndar ríkisins um launahækkanir verið með öllu óviðunandi fyrir þá 500 félagsmenn KVH sem sinna mikilvægum störfum á ríkisstofnunum og í engu sambærilegar við niðurstöðu Gerðardóms eða þær forsendur sem löggjafinn setti honum.

KVH skorar á fjármálaráðherra að beita sér fyrir lausn mála svo ekki þurfi að koma til ófriðar að nýju á opinberum vinnumarkaði.   Vísar KVH í því sambandi til orða fjármálaráðherra í viðtali við RUV frá 15. ágúst s.l. þar sem hann segist vona að niðurstaða Gerðardóms „verði grundvöllur að meiri friði á vinnumarkaði en verið hefur“.

BHM fræðslan

Fyrsta hádegiserindið í BHM-fræðslunni á þessu hausti fjallar um Jafnlaunastaðalinn, markmið hans og helstu áfánga í innleiðingu.

Kynning á jafnlaunastaðlinum

  • 15.september 2015
  • Staðsetning: BHM – Borgartún 6
  • Tími: kl. 12:00 – 13:00
  • Skráðu þig hér

Guðný Einarsdóttir sérfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneytinu kynnir Jafnlaunastaðalinn ÍST85:2012 og tilraunaverkefni um innleiðingu hans. Í erindinu verður farið yfir tilurð jafnlaunastaðalsins, markmið hans og helstu áföngum í innleiðingu.

Jafnframt vakin athygli á vinnustofum Starfsmenntar sem þróaðar hafa verið til að auðvelda innleiðingu staðalsins.

Áríðandi fundur um kjarasamninga

Til félagsmanna KVH á ríkisstofnunum:

Samningaviðræður KVH og ríkis (SNR)

Samninganefnd KVH boðar félagsmenn sem starfa á ríkistofnunum til félagsfundar, mánudaginn 14. september, í fundarsal (H og I) á annari hæð Hilton Reykjavík Nordica, Suðurlandsbraut 2.  Fundur hefst stundvíslega kl. 12 og áætlað er að honum ljúki ekki seinna en um kl. 13.

Fundarefni er staða kjarasamningaviðræðna KVH við samninganefnd ríkisins.  Á fundinum verður gerð grein fyrir þróun viðræðna og stöðunni í dag, en samningur hefur verið laus síðan 1. mars s.l.

Fjöldi samningafunda er að baki og KVH hefur lagt fram vel rökstudda kröfugerð, tillögur og drög að nýjum samningi, sem rædd hafa verið ítarlega.  SNR hefur hins vegar hafnað því meginatriði kröfugerðar KVH að hækkun launaliða verði í samræmi við þá launaþróun og þær launahækkanir sem aðrir háskólamenntaðir ríkisstarfsmenn hafa fengið á þessu ári og síðustu mánuðum, annað hvort með samningum eða úrskurði Gerðardóms.   Þessi afstaða samninganefndar ríkisins er algerlega óásættanleg.  Síðasta fundi aðila nú í vikunni lauk án árangurs og hefur annar samningafundur ekki verið ákveðinn.

Samninganefndin hvetur félagsmenn KVH sem starfa á ríkisstofnunum og eiga heimangengt að koma til þessa fundar sem hér er boðaður og ræða málin, áður en næstu skref verða tekin í kjaradeilunni við ríkið.

Forsíða

Félagsaðild

Í boði er meðal annars:

  • Fæðingarstyrkir og sjúkradagpeningar
  • Starfs- og endurmenntunarstyrkir
  • Sumarbústaðir og orlofshúsnæði, innanlands og erlendis

Námsmannaaðild

Námsmenn í viðskiptafræði eða hagfræði á háskólastigi, sem lokið hafa a.m.k. 60 einingum (ECTS) geta sótt um námsmannaaðild að KVH (NKVH). Slík aðild felur m.a. í sér:

  • Aðgang að upplýsingum og leiðbeiningum félagsins er snerta störf og kjör á vinnumarkaði
  • Aðstoð við gerð ráðningarsamninga
  • Aðgang að námskeiðum/málstofum KVH á ári hverju. Efni námskeiðanna eru fjölbreytt og höfða til námsmanna
  • Gjöf frá KVH þegar að námi lýkur