Kjarafélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga
Kjarafélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga (KVH) er stéttarfélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga. Félagið sér um að gera kjarasamninga fyrir hönd félagsmanna, bæði á almennum og opinberum vinnumarkaði. Það vinnur að bættum kjörum félagsmanna, gætir réttinda þeirra og er óháð starfsvettvangi, vinnuveitanda eða ráðningarformi.
Alls eru greiðandi félagsmenn nú tæplega 2.000. Um 55% starfar á almennum vinnumarkaði en 45% hjá hinu opinbera.
KVH hefur það að markmiði að félagsmenn þess njóti bestu mögulegrar þjónustu og hagsmunagæslu á hverjum tíma. KVH er aðili að Bandalagi háskólamanna.
Aðsetur KVH og BHM er að Borgartúni 6, Reykjavík.
Á skrifstofu KVH er svarað í síma og veitt ráðgjöf er hér segir:
Mánudaga – fimmtudaga 13:00-16:00.
Föstudaga 9:00-12:00.
Fyrir almennar heimsóknir er hægt að bóka ráðgjöf og fjarfundi í síma 595-5140 eða: kvh@bhm.is
Efst á baugi
Reykjavíkurborg dæmd vegna ólögmætrar áminningar
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi þ. 5.júní s.l. Reykjavíkurborg til að greiða fjármálastjóra Ráðhúss Reykjavíkur miskabætur, samhliða því að felld var úr gildi skrifleg áminning sem Reykjavíkurborg hafði veitt fjármálastjóranum í starfi. Málið (E-3132/2017) er athyglisvert fyrir margra hluta sakir, ekki hvað síst vegna ámælisverðra stjórnunarhátta og framgöngu skrifstofustjóra borgarstjóra og borgarritara.
Kveður dómari fast að orði í dómsniðurstöðu, en þar segir m.a.: „Um þá skilyrðislausu hlýðni sem skrifstofustjórinn virðist ætla af stefnanda verður sagt það eitt að þrátt fyrir stjórnunarrétt annars og hlýðniskyldu hins eru undirmenn ekki dýr í hringleikahúsi yfirmanna sinna. Að mati dómsins er þessi framkoma skrifstofustjórans í það minnsta óvirðing, ef ekki lítilsvirðing við samstarfsmann, sem er auk þess kynslóð eldri en hún og ætti, þó ekki nema vegna starfsreynslu sinnar, tilkall til örlítillar virðingar.“
Upphaf málsins má rekja til ágúst 2016, en áminning sem skrifstofustjóri Ráðhúss veitti undirmanni sínum, fjármálastjóra Ráðhúss var í fimm liðum: Fjármálastjórinn var áminntur í júní 2017 fyrir brot á hlýðniskyldu, óvandvirkni í starfi, ófullnægjandi árangur í starfi, ósamræmanlega framkomu og óhlýðni við löglegt boð yfirmanns. Í stuttu máli hafnaði dómari öllum þessum ávirðingum og dæmdi þær og áminninguna ólögmætar. Þá taldi dómarinn að áminningin hefði verið til þess fallin að skaða æru stefnanda og voru honum dæmdar miskabætur, auk málskostnaðar.
Fjármálastjórinn hefur meira en 35 ára reynslu af störfum tengdum fjármálum og hefur þar af verið fjármálastjóri Ráðhúss í rúm 10 ár. Skrifstofustjóri borgarstjóra og borgarritara hefur gegnt því starfi í rúm fimm ár. Skrifstofan heyrir undir borgarritara, sem heyrir beint undir borgarstjóra. Báðum þeim síðarnefndu var kunnugt um málið og hefðu getað leitað annarrar niðurstöðu en þeirrar að láta reyna á málið fyrir dómstólum, eins og lögmaður stefnanda hafði hvatt til. Ljóst var frá upphafi að málatilbúnaður skrifstofustjórans var rangur og óréttmætur, og gat ekki leitt til áminningar. Ein afleiðing málsins er sú að borgarsjóður hefur orðið að greiða umtalsverða fjármuni vegna ámælisverðra stjórnunarhátta í Ráðhúsi Reykjavíkur.
Dóminn má nálgast hér.
Orlofssjóður BHM
Eftirfarandi eru lausar dagsetningar í orlofshúsum BHM – bókanir fara fram í gegnum bókunarvef OBHM og gildir reglan fyrstur kemur fyrstur fær:
Útlönd
Calle San Policarpo á Torrevieja: Laust frá 19.7 til 26.7
Ailingen í Bodense: Laust frá 21.7 til 28.7
Odrup: Laust frá 24.8 til 31.8 og 14.9 til 21.9
Ringsted: Laust frá 24.8 til 31.8
Villa Luckendorf: 18.9 til 25.9
Innanlands
Hreðarvatn 10: Frá 6.7 til 13.7
Þá er töluvert af lausum húsum í Brekkuskógi í enda ágúst.
Ársfundur LSR og LH
Ársfundur LSR og LH verður haldinn miðvikudaginn 23. maí nk. kl. 15:00 á Hilton Reykjavík Nordica, Suðurlandsbraut 2. Fundurinn er opinn öllum sjóðfélögum og launagreiðendum.
Dagskrá fundar:
- Skýrslur stjórna LSR og LH
- Ársreikningar 2017
- Fjárfestingarstefna
- Tryggingafræðilegar úttektir
- Skuldbindingar launagreiðenda
- Breytingar á samþykktum
- Önnur mál.
Nýtir þú þinn rétt?
Styrkir til félagsmanna KVH úr sjóðum BHM
Þegar tölfræði styrkja úr sjóðum BHM á árinu 2017 er skoðuð, kemur m.a. eftirfarandi í ljós að því er varðar félagsmenn KVH:
Sjúkrasjóður (félagsmenn sem vinna á almennum vinnumarkaði): Úthlutað var 736 styrkjum til félagsmanna KVH, samtals að fjárhæð 40,3 m kr.
Styrktarsjóður (félagsmenn sem starfa hjá hinu opinbera): Úthlutað var 892 styrkjum til félagsmanna KVH, samtals að fjárhæð 40,6 m kr.
Um helmingur fjárhæðar styrkja í báðum sjóðunum voru sjúkradagpeningar, en aðrar algengustu tegundir styrkja voru: heilsurækt/líkamsrækt, fæðingarstyrkir, meðferð á líkama og sál, gleraugnastyrkur og tannviðgerðir.
Starfsmenntunarsjóður: Úthlutað var 261 styrk til félagsmanna KVH, samtals að fjárhæð 18,5 m kr. Styrkir runnu einkum til kynnisferða, námskeiðskostnaðar, námskostnaðar og ráðstefnukostnaðar.
Starfsþróunarsetur háskólamanna (félagsmenn sem starfa hjá ríki, sveitarfélögum og þeir á almennum markaði sem hafa samið í ráðningarsamningi við vinnuveitanda sinn um greiðslu í sjóðinn): Úthlutað var 102 styrkjum til félagsmanna KVH, samtals að fjárhæð kr. 13,3 m kr. Styrkir runnu einkum til námskostnaðar, ráðstefnukostnaðar og námskeiðskostnaðar.
KVH vill vekja athygli félagsmanna sinna á þeim möguleikum sem felast í hinum sameiginlegu sjóðum og þeim margvíslegu styrkjum sem hægt er að sækja um, ekki hvað síst vegna sí- og endurmenntunar. Kjarasamningsbundin iðgjöld vinnuveitenda í sjóðina vegna félagsmanna KVH eru mun meiri en sem nemur greiddum styrkjum. (sjá nánar á vefsíðu KVH, undir Sjóðir og styrkir)
Félagsaðild
Í boði er meðal annars:
- Fæðingarstyrkir og sjúkradagpeningar
- Starfs- og endurmenntunarstyrkir
- Sumarbústaðir og orlofshúsnæði, innanlands og erlendis
Námsmannaaðild
Námsmenn í viðskiptafræði eða hagfræði á háskólastigi, sem lokið hafa a.m.k. 60 einingum (ECTS) geta sótt um námsmannaaðild að KVH (NKVH). Slík aðild felur m.a. í sér:
- Aðgang að upplýsingum og leiðbeiningum félagsins er snerta störf og kjör á vinnumarkaði
- Aðstoð við gerð ráðningarsamninga
- Aðgang að námskeiðum/málstofum KVH á ári hverju. Efni námskeiðanna eru fjölbreytt og höfða til námsmanna
- Gjöf frá KVH þegar að námi lýkur