Kjarafélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga
Kjarafélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga (KVH) er stéttarfélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga. Félagið sér um að gera kjarasamninga fyrir hönd félagsmanna, bæði á almennum og opinberum vinnumarkaði. Það vinnur að bættum kjörum félagsmanna, gætir réttinda þeirra og er óháð starfsvettvangi, vinnuveitanda eða ráðningarformi.
Alls eru greiðandi félagsmenn nú tæplega 2.000. Um 55% starfar á almennum vinnumarkaði en 45% hjá hinu opinbera.
KVH hefur það að markmiði að félagsmenn þess njóti bestu mögulegrar þjónustu og hagsmunagæslu á hverjum tíma. KVH er aðili að Bandalagi háskólamanna.
Aðsetur KVH og BHM er að Borgartúni 6, Reykjavík.
Á skrifstofu KVH er svarað í síma og veitt ráðgjöf er hér segir:
Mánudaga – fimmtudaga 13:00-16:00.
Föstudaga 9:00-12:00.
Fyrir almennar heimsóknir er hægt að bóka ráðgjöf og fjarfundi í síma 595-5140 eða: kvh@bhm.is
Efst á baugi
Nýtir þú þinn rétt?
Styrkir til félagsmanna KVH úr sjóðum BHM
Þegar tölfræði styrkja úr sjóðum BHM á árinu 2017 er skoðuð, kemur m.a. eftirfarandi í ljós að því er varðar félagsmenn KVH:
Sjúkrasjóður (félagsmenn sem vinna á almennum vinnumarkaði): Úthlutað var 736 styrkjum til félagsmanna KVH, samtals að fjárhæð 40,3 m kr.
Styrktarsjóður (félagsmenn sem starfa hjá hinu opinbera): Úthlutað var 892 styrkjum til félagsmanna KVH, samtals að fjárhæð 40,6 m kr.
Um helmingur fjárhæðar styrkja í báðum sjóðunum voru sjúkradagpeningar, en aðrar algengustu tegundir styrkja voru: heilsurækt/líkamsrækt, fæðingarstyrkir, meðferð á líkama og sál, gleraugnastyrkur og tannviðgerðir.
Starfsmenntunarsjóður: Úthlutað var 261 styrk til félagsmanna KVH, samtals að fjárhæð 18,5 m kr. Styrkir runnu einkum til kynnisferða, námskeiðskostnaðar, námskostnaðar og ráðstefnukostnaðar.
Starfsþróunarsetur háskólamanna (félagsmenn sem starfa hjá ríki, sveitarfélögum og þeir á almennum markaði sem hafa samið í ráðningarsamningi við vinnuveitanda sinn um greiðslu í sjóðinn): Úthlutað var 102 styrkjum til félagsmanna KVH, samtals að fjárhæð kr. 13,3 m kr. Styrkir runnu einkum til námskostnaðar, ráðstefnukostnaðar og námskeiðskostnaðar.
KVH vill vekja athygli félagsmanna sinna á þeim möguleikum sem felast í hinum sameiginlegu sjóðum og þeim margvíslegu styrkjum sem hægt er að sækja um, ekki hvað síst vegna sí- og endurmenntunar. Kjarasamningsbundin iðgjöld vinnuveitenda í sjóðina vegna félagsmanna KVH eru mun meiri en sem nemur greiddum styrkjum. (sjá nánar á vefsíðu KVH, undir Sjóðir og styrkir)
BHM fær aðild að Norræna verkalýðssambandinu
Stjórn Norræna verkalýðssambandsins (Nordens fackliga samorganisation – NFS) samþykkti á fundi sínum í morgun umsókn Bandalags háskólamanna um aðild að sambandinu. Þar með bætist BHM í hóp 15 heildarsamtaka launafólks frá öllum Norðurlöndunum með um 9 milljónir félagsmanna innan sinna raða, en hlutverk NFS er að stuðla að nánu samstarfi milli aðildarsamtaka þess og standa að sameiginlegri hagsmunagæslu. Með aðildinni fær BHM möguleika á að fylgjast með og hafa áhrif á þróun vinnumarkaðar á Norðurlöndum og í Evrópu.
Norræna verkalýðssambandið var stofnað árið 1972 og er samstarfsvettvangur 16 heildarsamtaka launafólks frá Danmörku, Finnlandi, Færeyjum, Íslandi, Noregi og Svíþjóð. Þrenn íslensk heildarsamtök eiga aðild að sambandinu: ASÍ, BHM og BSRB. NFS er viðurkenndur fulltrúi norræns launafólks á vettvangi Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar og gegnir ráðgjafarhlutverki gagnvart þessum aðilum. Þá hafa samtök innan NFS víðtækt samráð og samstarf er varðar málefni evrópsks vinnumarkaðar og á vettvangi Evrópusambands verkalýðsfélaga (ETUC). Enn fremur tekur NFS þátt í samstarfi við verklýðshreyfingu í Eystrasaltsríkjunum og gegnir samræmingarhlutverki gagnvart Alþjóðavinnumálastofnuninni (ILO), Alþjóðasambandi verkalýðsfélaga (ITUC) og Ráðgjafarnefnd verkalýðshreyfingarinnar hjá Efnahags- og framfarastofnuninni (TUAC). Samhliða aðildinni að NFS hefur BHM sótt um aðild að ETUC, ITUC og TUAC.
Fræðsludagskrá BHM á vorönn 2018
Hér má nálgast seinni hluta fræðsludagskrá BHM á vorönn 2018. Skráning fer að venju fram á vef BHM og verður opnað fyrir hana kl. 12:00 á hádegi föstudaginn 6. apríl nk.
Aðalfundur KVH
Aðalfundur Kjarafélags viðskiptafræðinga og hagfræðinga verður haldinn fimmtudaginn 15. mars 2018, kl. 12:00 – 13:30, í aðalfundarsal BHM að Borgartúni 6, 3. hæð.
Dagskrá:
Skýrsla stjórnar um störf félagsins á liðnu starfsári
Reikningar félagsins
Skýrslur og tillögur nefnda
Tillögur félagsstjórnar
Kosning í embætti stjórnar og önnur trúnaðarstörf
Lagabreytingar
Ákvörðun félagsgjalda
Fjárhagsáætlun og fjárfestingastefna félagsins
Önnur mál
Kosningar: Á þessum aðalfundi skal skv. lögum félagsins kjósa tvo aðalmenn, þ.e. ritara og meðstjórnanda. Að auki skal kjósa þrjá varamenn í stjórn til eins árs. Eftirtaldir hafa gefið kost á sér með lögmætum fyrirvara til þessara embætta og eru því sjálfkjörnir:
Til ritara: Ragnheiður Ragnarsdóttir.
Til meðstjórnanda: Guðfinnur Þór Newman.
Til varastjórnar: Hjálmar Kjartansson, Sæmundur Árni Hermannsson og Björn Bjarnason.
Lagabreytingar: Stjórn KVH leggur fram eftirtaldar tillögur til lagabreytinga:
Að í lok annarrar málsgreinar 10.greinar laganna, um stjórn og félagsfundi, bætist við svohljóðandi setning: „Kjósa skal um hvert embætti fyrir sig.” Málsgreinin í heild hljóði þannig: “Kjöri aðalmanna í stjórn félagsins skal haga þannig að aldrei sé skipt um alla stjórnarmenn í einu. Þannig skal kjósa til embættis formanns, gjaldkera og eins meðstjórnanda á sama aðalfundi og svo til embættis ritara og eins meðstjórnanda á þeim næsta. Kjósa skal um hvert embætti fyrir sig.”
Að 16.grein laganna, um samninganefnd, verði einfölduð og færð til samræmis við núgildandi framkvæmd. Greinin hljóði því svona:
“Umboð til að gera kjarasamninga í nafni félagsins er hjá samninganefndum þess. Stjórn skipar í samninganefndir félagsins og formann hverrar nefndar fyrir sig. Samninganefnd skipar fulltrúa í samninganefndir sem eru sameiginlegar með öðrum aðilum. Verkefni samninganefndar eru:
- a) Að undirbúa kröfugerð félagsins vegna kjarasamningaviðræðna.
- b) Að sjá um framkvæmd viðræðna og annarra samskipta við viðsemjendur.
- c) Að ganga frá kjarasamningum og undirrita þá með fyrirvara um samþykki þeirra félagsmanna sem undir samninginn heyra.
- d) Að kynna félagsmönnum kjarasamning og sjá um að þeir sem samningur nær til fái kynningu á ákvæðum hans og áhrifum.
- e) Að sjá um að samningar séu bornir undir atkvæði viðkomandi félagsmanna.
- i) Framkvæmdastjóri KVH og/eða starfsmenn félagsins sitja í samstarfsnefndum með viðsemjendum til að fjalla um ágreining ef upp kemur um túlkun á kjarasamningi, réttindum eða framkvæmd aðalkjarasamnings, auk þess að fylgja eftir bókunum kjarasamninga.
Allir kjarasamningar sem gerðir eru í nafni KVH skulu undirritaðir af samninganefnd félagsins. “
- Samtöl BHM við forystufólk stjórnmálaflokka í aðdraganda kosninga
- Við styðjum baráttu kennara fyrir bættum kjörum
- Reglubreytingar hjá Starfsþróunarsetri háskólamanna sem taka til einstaklinga
- Reglubreytingar hjá Starfsþróunarsetri háskólamanna
- Séreignarsparnaður nauðsynlegur valkostur til að létta greiðslubyrði
Félagsaðild
Í boði er meðal annars:
- Fæðingarstyrkir og sjúkradagpeningar
- Starfs- og endurmenntunarstyrkir
- Sumarbústaðir og orlofshúsnæði, innanlands og erlendis
Námsmannaaðild
Námsmenn í viðskiptafræði eða hagfræði á háskólastigi, sem lokið hafa a.m.k. 60 einingum (ECTS) geta sótt um námsmannaaðild að KVH (NKVH). Slík aðild felur m.a. í sér:
- Aðgang að upplýsingum og leiðbeiningum félagsins er snerta störf og kjör á vinnumarkaði
- Aðstoð við gerð ráðningarsamninga
- Aðgang að námskeiðum/málstofum KVH á ári hverju. Efni námskeiðanna eru fjölbreytt og höfða til námsmanna
- Gjöf frá KVH þegar að námi lýkur