Kjarafélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga
Kjarafélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga (KVH) er stéttarfélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga. Félagið sér um að gera kjarasamninga fyrir hönd félagsmanna, bæði á almennum og opinberum vinnumarkaði. Það vinnur að bættum kjörum félagsmanna, gætir réttinda þeirra og er óháð starfsvettvangi, vinnuveitanda eða ráðningarformi.
Alls eru greiðandi félagsmenn nú tæplega 2.000. Um 55% starfar á almennum vinnumarkaði en 45% hjá hinu opinbera.
KVH hefur það að markmiði að félagsmenn þess njóti bestu mögulegrar þjónustu og hagsmunagæslu á hverjum tíma. KVH er aðili að Bandalagi háskólamanna.
Aðsetur KVH og BHM er að Borgartúni 6, Reykjavík.
Á skrifstofu KVH er svarað í síma og veitt ráðgjöf er hér segir:
Mánudaga – fimmtudaga 13:00-16:00.
Föstudaga 9:00-12:00.
Fyrir almennar heimsóknir er hægt að bóka ráðgjöf og fjarfundi í síma 595-5140 eða: kvh@bhm.is
Efst á baugi
Krafa í heimabanka ekki frá KVH
Fjöldi fyrirspurna hefur borist að undanförnu til KVH vegna kröfu FVH í heimabanka félagsmanna. Mikilvægt er að benda á að umrædd krafa er EKKI á vegum KVH heldur Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga (FVH), sem er sjálfstætt fagfélag og KVH alveg óviðkomandi.
Félagsmenn KVH greiða sitt stéttarfélagsgjald mánaðarlega eins og sjá má á frádrætti á launaseðlum, en félagsgjaldið er 0,6% af heildarlaunum og með því lægsta sem tíðkast.
Framkvæmdastjóri KVH
Guðfinnur Þór Newman hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Kjarafélags viðskiptafræðinga og hagfræðinga frá 1. sept. n.k. Hallur Páll Jónsson, sem verið hefur framkvæmdastjóri KVH frá ársbyrjun 2013, lætur nú af störfum vegna aldurs en hann mun vinna að ýmsum sérverkefnum fyrir félagið til næstu áramóta.
Guðfinnur er viðskiptafræðingur að mennt frá Háskóla Íslands, með áherslu á fjármál og endurskoðun. Þá hefur hann einnig lokið prófi í verðbréfamiðlun frá Háskólanum í Reykjavík. Síðastliðið ár hefur hann starfað sjálfstætt sem ráðgjafi en þar áður starfaði hann í tæp 2 ár hjá Samorku. Hann starfaði í tæp 10 ár hjá Reykjavíkurborg, á skrifstofu borgarhagfræðings og sem deildarstjóri tölfræði og greiningar. Einnig starfaði Guðfinnur hjá Sambandi ísl. sveitarfélaga í 5 ár á lögfræði- og kjarasviði sambandsins.
Guðfinnur hefur mjög mikla reynslu í kjarasamningsgerð og vinnumarkaðsmálum en hann hefur komið að gerð kjarasamninga frá síðustu aldamótum. Einnig hefur hann mikla þekkingu á launatölfræði sem og líkanasmíði. Síðast liðin tvö ár hefur Guðfinnur verið stjórnarmaður í KVH og Bandalagi háskólamanna.
Kjarafélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga er þriðja stærsta stéttarfélagið innan Bandalags háskólamanna. Félagsmenn KVH starfa á öllum vinnumarkaðinum og í flestum atvinnugreinum.
Bandalag háskólamanna 60 ára
BHM fagnar 60 ára afmæli á árinu og verður tímamótanna minnst með ýmsum hætti. Sjá nánar hér.
Mótframlag í lífeyrissjóði hækkar
Í samræmi við ákvæði kjarasamnings KVH og Samtaka atvinnulífsins hækkar mótframlag atvinnurekanda á almennum vinnumarkaði frá 1.júlí um 1,5% og verður 11,5%. Þar með er það orðið hið sama og gildir hjá opinberum vinnuveitendum. Launamaður greiðir áfram 4% iðgjald til lífeyrissjóðs, þannig að samtals nemur skylduiðgjaldið 15,5%.
Athygli er vakin á því að um skiptingu gjaldsins í samtryggingasjóð og séreignasjóð fer samkvæmt lögum um lífeyrissjóði og eftir atvikum samþykktum hlutaðeigandi lífeyrissjóða.
Félagsaðild
Í boði er meðal annars:
- Fæðingarstyrkir og sjúkradagpeningar
- Starfs- og endurmenntunarstyrkir
- Sumarbústaðir og orlofshúsnæði, innanlands og erlendis
Námsmannaaðild
Námsmenn í viðskiptafræði eða hagfræði á háskólastigi, sem lokið hafa a.m.k. 60 einingum (ECTS) geta sótt um námsmannaaðild að KVH (NKVH). Slík aðild felur m.a. í sér:
- Aðgang að upplýsingum og leiðbeiningum félagsins er snerta störf og kjör á vinnumarkaði
- Aðstoð við gerð ráðningarsamninga
- Aðgang að námskeiðum/málstofum KVH á ári hverju. Efni námskeiðanna eru fjölbreytt og höfða til námsmanna
- Gjöf frá KVH þegar að námi lýkur