Kjarafélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga
Kjarafélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga (KVH) er stéttarfélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga. Félagið sér um að gera kjarasamninga fyrir hönd félagsmanna, bæði á almennum og opinberum vinnumarkaði. Það vinnur að bættum kjörum félagsmanna, gætir réttinda þeirra og er óháð starfsvettvangi, vinnuveitanda eða ráðningarformi.
Alls eru greiðandi félagsmenn nú tæplega 2.000. Um 55% starfar á almennum vinnumarkaði en 45% hjá hinu opinbera.
KVH hefur það að markmiði að félagsmenn þess njóti bestu mögulegrar þjónustu og hagsmunagæslu á hverjum tíma. KVH er aðili að Bandalagi háskólamanna.
Aðsetur KVH og BHM er að Borgartúni 6, Reykjavík.
Á skrifstofu KVH er svarað í síma og veitt ráðgjöf er hér segir:
Mánudaga – fimmtudaga 13:00-16:00.
Föstudaga 9:00-12:00.
Fyrir almennar heimsóknir er hægt að bóka ráðgjöf og fjarfundi í síma 595-5140 eða: kvh@bhm.is
Efst á baugi
Staðan í kjaraviðræðum við ríkið – Baráttufundur
Nýjar úthlutunarreglur Starfsmenntunarsjóðs BHM – Hámarksstyrkur nú 120.000 kr
Í ljósi sterkrar fjárhagsstöðu Starfsmenntunarsjóðs BHM hefur stjórn sjóðsins ákveðið að breyta úthlutunarreglum hans frá og með 1. nóvember. Helstu breytingar eru þær að hámarksstyrkur sem veittur er á hverju 24 mánaða tímabili er nú 120 þúsund krónur en var áður 100 þúsund krónur. Þá hefur reglum um ávinnslu réttar í sjóðnum verið breytt á þann veg að nú öðlast sjóðfélagi rétt til að hljóta styrk þegar vinnuveitandi hefur greitt iðgjald fyrir hann í 6 mánuði, þar af samfellt í a.m.k. 3 mánuði. Áður þurfti vinnuveitandi að hafa greitt iðgjald samfellt í 6 mánuði til að sjóðfélagi öðlaðist rétt til að hljóta styrk úr sjóðnum.
Orlofsblað BHM kemur framvegis eingöngu út á rafrænu formi
Stjórn Orlofssjóðs BHM hefur ákveðið að Orlofsblaðið komi framvegis eingöngu út á rafrænu formi. Til þessa hefur blaðið verið prentað og borið út til sjóðfélaga. Ákvörðunin er í takt við breytt viðhorf og væntingar til stofnana og fyrirtækja á sviði umhverfismála.
Fyrsta tölublaðið sem eingöngu verður gefið út rafrænt verður Orlofsblaðið 2020. Það verður sent til sjóðfélaga sem pdf-skjal í tölvupósti. Vakin er athygli á því að hægt er að skrá sig á póstlista Orlofssjóðs á orlofsvefnum. Einnig verður blaðið birt á orlofsvefnum og vef BHM og dreift á samfélagsmiðlum.
Kröfurnar eru skýrar
Formaður Sameykis, Árni Stefán Jónsson, gagnrýndi í fréttum RÚV í gær fimm aðildarfélög BHM sem undirrituðu kjarasamning við ríkið sl. mánudag. Að sögn formanns Sameykis stóðu aðildarfélög BSRB í þeirri trú að stéttarfélög opinberra starfsmanna ætluðu að fylgjast að hvað varðar útfærslu á styttingu vinnuvikunnar í nýjum kjarasamningum. Með samningi BHM-félaganna fimm við ríkið hafi þessi samstaða verið rofin.
Vegna ummæla formanns Sameykis vilja átta aðildarfélög BHM, sem hafa haft samflot í yfirstandandi kjaraviðræðum, taka fram að þau telja hag sinna félagsmanna ekki borgið með því að skrifa undir samningstilboð ríkisins sem byggist á krónutöluhækkunum, felur í sér styttingu vinnuvikunnar (með sölu og takmörkunum á ýmsum gæðum) og umfangsmikla breytingu á yfirvinnutaxta.
Kröfur félaganna eru skýrar: Við viljum prósentuhækkanir sem skila auknum kaupmætti til félagsmanna á samningstímanum, styttingu vinnuvikunnar í 35 stundir að meðtöldum hléum og að menntun sé metin til launa þannig að lágmarkslaun fyrir fyrstu háskólagráðu verði ekki lægri en 500.000 kr.
BHM-félögin átta eru:
Dýralæknafélag Íslands
Félag geislafræðinga
Félag íslenskra náttúrufræðinga
Félagsráðgjafafélag Íslands
Iðjuþjálfafélag Íslands
Kjarafélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga
Sálfræðingafélag Íslands
Þroskaþjálfafélag Íslands.
Félagsaðild
Í boði er meðal annars:
- Fæðingarstyrkir og sjúkradagpeningar
- Starfs- og endurmenntunarstyrkir
- Sumarbústaðir og orlofshúsnæði, innanlands og erlendis
Námsmannaaðild
Námsmenn í viðskiptafræði eða hagfræði á háskólastigi, sem lokið hafa a.m.k. 60 einingum (ECTS) geta sótt um námsmannaaðild að KVH (NKVH). Slík aðild felur m.a. í sér:
- Aðgang að upplýsingum og leiðbeiningum félagsins er snerta störf og kjör á vinnumarkaði
- Aðstoð við gerð ráðningarsamninga
- Aðgang að námskeiðum/málstofum KVH á ári hverju. Efni námskeiðanna eru fjölbreytt og höfða til námsmanna
- Gjöf frá KVH þegar að námi lýkur