HVER GÆTIR ÞINNA HAGSMUNA?

HVER GÆTIR ÞINNA HAGSMUNA?

Kjarafélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga

Kjarafélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga (KVH) er stéttarfélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga. Félagið sér um að gera kjarasamninga fyrir hönd félagsmanna, bæði á almennum og opinberum vinnumarkaði.  Það vinnur að bættum kjörum félagsmanna, gætir réttinda þeirra og er óháð starfsvettvangi, vinnuveitanda eða ráðningarformi.

Alls eru greiðandi félagsmenn nú tæplega 2.000. Um 55% starfar á almennum vinnumarkaði en 45% hjá hinu opinbera.

KVH hefur það að markmiði að félagsmenn þess njóti bestu mögulegrar þjónustu og hagsmunagæslu á hverjum tíma. KVH er aðili að Bandalagi háskólamanna.

Aðsetur KVH og BHM er að Borgartúni 6, Reykjavík.

Á skrifstofu KVH er svarað í síma og veitt ráðgjöf er hér segir:

Mánudaga – fimmtudaga 13:00-16:00.

Föstudaga 9:00-12:00.

Fyrir almennar heimsóknir er hægt að bóka ráðgjöf og fjarfundi í síma 595-5140 eða: kvh@bhm.is

Efst á baugi


Er hægt að halda jafnri ávinnslu lífeyrisréttinda við atvinnumissi?

LSR, Brú og atvinnuleysisbætur

Fólk sem nýtur jafnrar réttindaávinnslu í A-deildum LSR og Brúar, með framlögum úr lífeyrisaukasjóðum þeirra, á rétt á að halda jafnri réttindaávinnslu þótt það missi vinnu og fari á atvinnuleysisbætur.

Samkvæmt lögum ber öllum launþegum í landinu að lágmarki að greiða 4% launa sinna í lífeyrissjóð og almennt greiða vinnuveitendur 11,5% mótframlag. Einstaklingur sem missir vinnu og fær atvinnuleysisbætur skal einnig að lágmarki greiða 4% af þeim í lífeyrissjóð og greiðir Atvinnuleysistryggingasjóður þá 11,5% mótframlag.

Árið 2016 gerðu bandalög opinberra starfsmanna samkomulag við ríki og sveitarfélög um breytingar á lífeyriskerfinu. Ein helsta breytingin fólst í því að í stað svokallaðrar jafnrar réttindaávinnslu var tekin upp svokölluð aldurstengd réttindaávinnsla. Með sérstöku fyrirkomulagi var tryggt að réttindi þáverandi sjóðfélaga í A-deildum Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR) og Brúar lífeyrissjóðs héldust jafn verðmæt fyrir og eftir breytingarnar. Til að þessir sjóðfélagar gætu áfram notið jafnrar réttindaávinnslu voru myndaðir svokallaðir lífeyrisaukasjóðir innan A-deildanna.

Hver eiga rétt á lífeyrisauka?

Lífeyrisaukasjóðir A-deildanna tryggja eingöngu réttindi þeirra sem voru sjóðfélagar 1. júní 2017. Lífeyrisaukasjóður LSR tryggir réttindi sjóðfélaga sem starfa hjá stofnunum eða fyrirtækjum sem að meirihluta eru fjármögnuð með skatttekjum, lögbundnum þjónustutekjum eða framlögum. Lífeyrisaukasjóður Brúar tryggir réttindi starfsmannna sveitarfélaga eða stofnana þeirra.

Sjóðfélagar A-deilda LSR eða Brúar sem starfa hjá öðrum aðilum en nefndir eru hér að framan eiga ekki rétt á lífeyrisauka. Ef þessir sjóðfélagar vilja halda jafnri réttindaávinnslu þurfa launagreiðendur þeirra að greiða sérstakt iðgjald fyrir þá til viðbótar við fasta mótframlagið. Þetta sérstaka iðgjald samsvarar lífeyrisauka. Frá 1. janúar 2019 hefur það verið 5,91% af launum hjá LSR en 6,0% hjá Brú en fasta mótframlagið er almennt 11,5%. Samtals greiða launagreiðendur því 17,41% eða 17,5% af launum vegna þessara starfsmanna til LSR eða Brúar.

Mismunandi staða sjóðfélaga við atvinnumissi

Ef sjóðfélagi sem hefur átt rétt á lífeyrisauka missir vinnu og sækir um atvinnuleysisbætur getur hann áfram notið jafnrar réttindaávinnslu hjá LSR eða Brú ef hann/hún greiðir 4% af bótunum til síns sjóðs. Atvinnuleysistryggingasjóður greiðir þá fasta mótframlagið (11,5%) fyrir sjóðfélagann og lífeyrisaukasjóðirnir greiða áfram lífeyrisauka vegna hans/hennar.

Ef ríkisstarfsmaður sem ekki hefur átt rétt á lífeyrisauka missir vinnu og sækir um atvinnuleysisbætur þarf hann/hún að greiða bæði fasta iðgjaldið (4%) og hið sérstaka iðgjald (5,91%) af atvinnuleysisbótum sínum til LSR til að halda jafnri réttindaávinnslu. Samkvæmt samþykktum LSR þurfa sjóðfélagar að gera skil á hugsanlegum mismun á mótframlagi sem greitt er af Atvinnuleysistryggingasjóði og iðgjaldi sem launagreiðanda ber að skila til A-deildar á hverjum tíma. Geri sjóðfélagi ekki skil á þessum mismun innan fjögurra vikna frá gjalddaga iðgjalda fyrirgerir hann/hún rétti sínum til að greiða af atvinnuleysisbótum sínum til A-deildar.

Þverfaglegt 30 eininga diplómanám fyrir núverandi og verðandi stjórnendur í heilbrigðiskerfinu

Stjórnmálafræðideild HÍ í samstarfi við Hjúkrunarfræðideild og Viðskiptadeild býður þverfaglegt 30 eininga Diplómanám, stjórnunarnám á meistarastigi fyrir núverandi og verðandi stjórnendur í heilbrigðiskerfinu. Stundaskrá neðst í póstinum.
Hægt er að taka námsleiðina í fjarnámi, en þá er val-námskeiða valið takmarkaðra. Hægt er að sækja um að fá námið er metið inní annað framhaldsnám viðkomandi deilda kjósi nemendur að halda áfram til meistaraprófs. (Sjá upplýsingar um hvort tveggja í bæklingum)
Forkrafa er BA/BS eða B.ed próf í einhverri grein. Valin hafa verið saman námskeið úr fjórum deildum HÍ,  sem saman mynda gagnlega heild: Þrjú skyldunámskeið, en nemendur velja síðan tvö námskeið úr  tíu mögulegum valnámskeiðum. Kennarar sem koma úr röðum fastra kennara eru fag- og fræðimenn sem stundað hafa rannsóknir á sínum sérsviðum, auk fjölbreyttrar starfsreynslu.
Við val á námskeiðum var haft samráð við sn. samráðshóp stjórnenda víðs vegar að úr íslensku heilbrigðiskerfi.

Umsóknareyðublað og upplýsingar um umsóknaferilinn eru hér: https://www.hi.is/umsokn_um_nam

Ekki eru tekin skólagjöld við HÍ en nemendur greiða sn. skráningagjald kr. 55.000.- ef þeir hefja nám um áramót, en 75.000.- fyrir námsárið.
Endilega hafðu samband við Margréti eða Elvu ef þú hefur frekari spurningar eða vilt ræða um þennan möguleika.

Margrét S. Björnsdóttir msb@hi.is, símar 5254254 og 8677817
Elva Ellertsdóttir elva@hi.is, sími 525-4573

Stundaskrá námskeiðanna sem kennd eru í stjórnmálafræðideild:

https://www.hi.is/sites/default/files/am/stj_stjornmalafraedi_dipl._i_opinb._stj._fyrir_stjornendur_i_heilbrigdistjonustu_16.pdf

Og námskeiðið: HJÚ 258F Forysta í heilbrigðisþjónustu.

Kennt:
Mánudagana 27.1., 24.2., 23.3.og 20.4. kl. 8.20-11.30. Þe. 4 skipti.

Vikan 19.5.-22.5.,  þri. – fim. kl. 8.20- 11.30 og 12.30-16.30. og föstudaginn  22.5. kl. 8.20  – 11.30

Bæklingur með ítarlegri lýsingu á náminu og einstökum námskeiðum: https://www.hi.is/sites/default/files/thbg/baeklingur_diploma_opinb_heilbr_2019-20_org.pdf
Einnig er hægt að skoða námið inn í kennsluskrá HÍ-þar sést einnig á hvoru misserinu námskeið eru kennd: http://bit.ly/stjornun_i_heilbrigdisthjonustu

Forsíða

Félagsaðild

Í boði er meðal annars:

  • Fæðingarstyrkir og sjúkradagpeningar
  • Starfs- og endurmenntunarstyrkir
  • Sumarbústaðir og orlofshúsnæði, innanlands og erlendis

Námsmannaaðild

Námsmenn í viðskiptafræði eða hagfræði á háskólastigi, sem lokið hafa a.m.k. 60 einingum (ECTS) geta sótt um námsmannaaðild að KVH (NKVH). Slík aðild felur m.a. í sér:

  • Aðgang að upplýsingum og leiðbeiningum félagsins er snerta störf og kjör á vinnumarkaði
  • Aðstoð við gerð ráðningarsamninga
  • Aðgang að námskeiðum/málstofum KVH á ári hverju. Efni námskeiðanna eru fjölbreytt og höfða til námsmanna
  • Gjöf frá KVH þegar að námi lýkur