Kjarafélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga
Kjarafélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga (KVH) er stéttarfélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga. Félagið sér um að gera kjarasamninga fyrir hönd félagsmanna, bæði á almennum og opinberum vinnumarkaði. Það vinnur að bættum kjörum félagsmanna, gætir réttinda þeirra og er óháð starfsvettvangi, vinnuveitanda eða ráðningarformi.
Alls eru greiðandi félagsmenn nú tæplega 2.000. Um 55% starfar á almennum vinnumarkaði en 45% hjá hinu opinbera.
KVH hefur það að markmiði að félagsmenn þess njóti bestu mögulegrar þjónustu og hagsmunagæslu á hverjum tíma. KVH er aðili að Bandalagi háskólamanna.
Aðsetur KVH og BHM er að Borgartúni 6, Reykjavík.
Á skrifstofu KVH er svarað í síma og veitt ráðgjöf er hér segir:
Mánudaga – fimmtudaga 13:00-16:00.
Föstudaga 9:00-12:00.
Fyrir almennar heimsóknir er hægt að bóka ráðgjöf og fjarfundi í síma 595-5140 eða: kvh@bhm.is
Efst á baugi
Úthlutun úr vísindasjóð KVH
Gert er ráð fyrir að úthlutað sé úr Vísindasjóð KVH um miðjan febrúar 2021.
Vísindasjóður KVH
Vísindasjóður KVH, líkt og vísindasjóðir annarra aðildarfélaga BHM, var stofnaður með kjarasamningunum 1989. Í sjóðinn leggur launagreiðandi fram 1,5% af dagvinnulaunum launþega.
Hverjir eiga rétt á úthlutun ?
Allir fullgildir félagar, sem greitt hefur verið fyrir í sjóðinn á hverju almanaksári, og sem taka laun eftir kjarasamningum KVH við Samband íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg, eiga rétt á styrk. Einnig þeir félagsmenn á almennum vinnumarkaði sem samið hafa við vinnuveitanda sinn um greiðslur í sjóðinn.
Félagsmenn sem starfa hjá ríki eiga ekki lengur rétt á úthlutun úr vísindasjóði. Í kjarasamningum KVH og ríkisins 2008 var framlag vinnuveitanda í vísindasjóð aflagt með þeim hætti að launatafla var hækkuð um 2,0%, vegna breytinga á vísindasjóðsframlagi.
Á almenna vinnumarkaðinum er aðild að vísindasjóði valkvæð eins og áður segir og geta félagsmenn samið í ráðningarsamningi við vinnuveitanda um greiðslur í sjóðinn.
Styrkfjárhæð og úthlutunarmánuður
Styrkfjárhæð er miðuð við innborgun í sjóðinn á almanaksári, nú síðast tímabilið 1. janúar 2020 – 31. desember 2020. Úthlutað er úr sjóðnum árlega, í febrúar.
Ekki þarf að sækja sérstaklega um úthlutun úr vísindasjóðnum.
Skattaleg meðferð:
Styrkurinn er forskráður á skattframtal styrkþega og er talinn fram til skatts eins og aðrar tekjur. Gera skal sundurliðaða grein fyrir þeim kostnaði sem framteljandi telur fram á móti styrknum, á sérstöku undirblaði á vefframtali. Nánari upplýsingar er að finna á vef ríkisskattstjóra, www.rsk.is
Vinnutími háskólafólks og skrifstofufólks samræmdur á almennum vinnumarkaði
Samkomulag var gert um breytingu á kjarasamningi SA og nokkurra aðildarfélaga BHM fyrr í dag. Með breytingunum eru vinnutímaákvæði kjarasamningsins aðlöguð að vinnutímaákvæðum kjarasamninga skrifstofufólks á almennum vinnumarkaði en í framkvæmd hefur dagvinnutími víða verið samræmdur milli þeirra starfsmanna sem starfa eftir kjarasamningi þessum og þeirra sem starfa eftir kjarasamningum skrifstofufólks.
Vinnutímastytting kemur einungis til framkvæmda þar sem virkur vinnutími (sá tími sem starfsmaður er við störf) er lengri en 35,5 stundir að jafnaði á viku. Neysluhlé og önnur hlé frá vinnu vegna ýmiss konar persónulegra erinda teljast ekki til virks vinnutíma í þessu sambandi. Vinnutímastyttingin á að koma til framkvæmda, þar sem við á, eigi síðar en 1. mars nk.
Margir stjórnendur og sérfræðingar hafa alla jafna töluvert svigrúm til að skipuleggja vinnutíma sinn og eru fyrst og fremst ráðnir til að sinna tilteknum verkefnum og fá fyrir það föst mánaðarlaun. Yfirvinna er oft innifalin í mánaðarlaunum og/eða vinnutími sveigjanlegur. Rétt er að samtal eigi sér stað þar sem svo háttar til um bætta nýtingu vinnutíma gegn styttri viðveru svo samræma megi betur atvinnu- og fjölskyldulíf.
Eftirtalin sátu í viðræðunefnd félaganna:
Maríanna H. Helgadóttir, formaður
Guðfinnur Þór Newman, varaformaður
Júlíana Guðmundsdóttir, lögfræðingur
Með nefndinni starfaði hagfræðingur BHM, Vilhjálmur Hilmarsson.
Aðildarfélög innan BHM sem eiga aðild að þessum samningi eru:
Dýralæknafélag Íslands
Félag íslenskra félagsvísindamanna
Félags íslenskra náttúrufræðinga
Félag lífeindafræðinga
Félag sjúkraþjálfara
Félagsráðgjafafélag Íslands
Fræðagarður
Iðjuþjálfafélag Íslands
Kjarafélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga
Ljósmæðrafélag Íslands
Sálfræðingafélag Íslands
Stéttarfélag bókasafns- og upplýsingafræðinga
Stéttarfélag lögfræðinga
Þroskaþjálfafélag Íslands
Frekari kynning verður á samningnum í janúar.
Rekstur smáfyrirtækja – fyrirlestur í streymi
Haldinn verður fyrirlestur í streymi á streymisveitu BHM þriðjudaginn 12. janúar kl. 13:00. Fyrirlesturinn verður aðgengilegur í fimm daga í kjölfarið á fræðslusíðu BHM, hér: Fræðsla fyrir félagsmenn*.
Guðrún Björg Bragadóttir frá viðskipta- og skattasviði KPMG mun halda fyrirlestur um ýmis mál tengd bókhaldi fyrir einstaklinga sem eru í rekstri á eigin kennitölu eða hafa stofnað einkahlutafélag.
Meðal þess sem hún fara yfir er:
- Munurinn á sjálfstætt starfandi og launþega
- Reiknað endurgjald
- Skil opinbera gjalda
- Skil launatengdra gagna
- Lífeyrissjóður og heimildir til að greiða umfram hlutfall af reiknuðu endurgjaldi
- Stéttarfélög og sjóðir
*Athugið að fyrir neðan innskráningardálkana á hlekknum Fræðsla fyrir félagsmenn eru tveir hlekkir: Nýskráning og Gleymt lykilorð – fyrir þau sem eru að skrá sig inn í fyrsta sinn eða hafa gleymt lykilorðinu.
Guðrún Björg Bragadóttir er sérfræðingur í viðskipta- og skattamálum hjá KPMG, hún er með Cand. Oecon próf frá Háskóla Íslands og meistarapróf í skattamálum frá Viðskiptaháskólanum í Kaupmannahöfn.
Opnunartími skrifstofu KVH
Skrifstofa KVH er opin sem hér segir:
Mánudaga – fimmtudaga 9:00-12:00 og 13:00-16:00.
Föstudaga 9:00-12:00.
Öllum tölvupóstum sem berast félaginu verður svarað eins fljótt og kostur er og innan tveggja virkra daga
Félagsaðild
Í boði er meðal annars:
- Fæðingarstyrkir og sjúkradagpeningar
- Starfs- og endurmenntunarstyrkir
- Sumarbústaðir og orlofshúsnæði, innanlands og erlendis
Námsmannaaðild
Námsmenn í viðskiptafræði eða hagfræði á háskólastigi, sem lokið hafa a.m.k. 60 einingum (ECTS) geta sótt um námsmannaaðild að KVH (NKVH). Slík aðild felur m.a. í sér:
- Aðgang að upplýsingum og leiðbeiningum félagsins er snerta störf og kjör á vinnumarkaði
- Aðstoð við gerð ráðningarsamninga
- Aðgang að námskeiðum/málstofum KVH á ári hverju. Efni námskeiðanna eru fjölbreytt og höfða til námsmanna
- Gjöf frá KVH þegar að námi lýkur