Gjaldþrot og laun
Þegar fyrirtæki lýsir sig gjaldþrota eða lánadrottnar krefjast gjaldþrotaskipta er að ýmsu að hyggja fyrir launþega og mikilvægt að bregðast rétt við.
Við gjaldþrotaúrskurð er skipaður skiptastjóri í þrotabú vinnuveitanda, sem lýsir eftir kröfum í þrotabúið í Lögbirtingablaðinu. Launþegi hefur tvo mánuði til að lýsa kröfu í þrotabúið og sjá stéttarfélög um það fyrir sína félagsmenn, óski þeir þess. Félagsmaður veitir þá stéttarfélagi umboð til að sjá um að lýsa kröfum í búið. Launþegi lætur stéttarfélagi í té afrit af ráðningarsamningi sé hann til og launaseðlum hafi þeir verið gefnir út og útbýr kröfulýsingu í búið. Jafnframt sendir stéttarfélag staðfestingu til Vinnumálastofnunar um að krafa verði gerð í réttmætan uppsagnarfrest fyrir hönd launþega.
Launakröfur eru forgangskröfur við gjaldþrot fyrirtækja sem þýðir að slíkar kröfur eru greiddar fyrst séu einhverjar eignir fyrir hendi í þrotabúinu. Ef þrotabúið er hins vegar eignalaust eru launakröfur tryggðar hjá Ábyrgðasjóði launa.
Launþegi þarf að skrá sig atvinnulausan hjá Vinnumálastofnun um leið og fyrirtækið verður gjaldþrota og hann missir starf sitt hjá því. Slík skráning er meðal annars forsenda þess að Ábyrgðasjóður launa greiði út launakröfu vegna óunnins uppsagnarfrests hjá gjaldþrota fyrirtæki.