Endurmenntun / fræðsla

 

Endurmenntun og framhaldsmenntun er sérlega mikilvæg fyrir háskólamenntaða starfsmenn og þeir almennt áhugasamir um að auka við þekkingu sína og færni.

Í kjarasamningum KVH eru sérstakir kaflar um endurmenntun (10. kafli hjá ríki og sveitarfélögum, 11. kafli hjá Reykjavíkurborg og kafli 5.5  hjá SA).   Í samningunum eru ákvæði um launuð námsleyfi, launalaus leyfi og mismunandi greiðslur vinnuveitenda í viðkomandi sjóði, þ.e. Starfsmenntunarsjóð, Starfsþróunarsetur háskólamanna og Vísindasjóð KVH. Mikilvægt er að félagsmenn KVH á almennum vinnumarkaði semji í ráðningarsamningum sínum um greiðslu vinnuveitanda í Vísindasjóð KVH og Starfsþróunarsetur háskólamanna, en það er valkvætt á almenna vinnumarkaðinum.

Yfirleitt er möguleiki starfsmanns til að sækja sér endurmenntun eða fara í nám meðfram starfi háð heimild og skilningi vinnuveitanda. Hins vegar var gerð mikilvæg breyting í kjarasamning við ríkið, þar sem starfsmaður með fjögurra ára starfsreynslu hjá sömu ríkisstofnun á nú rétt á leyfi til að stunda endurmenntun/framhaldsmenntun á reglubundnum launum (sjá gr. 10.1.1).  Þessi réttur uppsafnaður getur mest orðið 6 mánuðir. Í bókun 4 með kjarasamningi við ríkið er þó varnagli sem getur heimilað stofnun að takmarka fjölda þeirra sem nýta sér þennan rétt árlega.

Félagsmenn KVH eru eindregið hvattir til að kynna sér möguleika á styrkjum til endurmenntunar úr sjóðum BHM og láta jafnframt reyna á heimildarákvæði samninga og/eða rétt sinn til endurmenntunar eins og kjarasamningar gera ráð fyrir.

Stöðugt bætist við þekkingarbrunn hag- og viðskiptafræða bæði með nýjum akademískum rannsóknum, framþróun í hugbúnaði og tækni, og reynslu úr atvinnulífinu innanlands og utan. Aukin þekking og hæfni eru sameiginlegir hagsmunir starfsmanna og vinnuveitanda.

 

Ítarefni

Ríki

Endurmenntun, framhaldsnám

Starfsmaður sem unnið hefur í fjögur ár hjá sömu stofnun á rétt á leyfi til að stunda endurmenntun/framhaldsnám enda sé það í samræmi við endurmenntunar-/starfsþróunaráætlun viðkomandi stofnunar eða starfsmanns sé hún til staðar.

Í leyfinu skal starfsmaður halda reglubundnum launum sbr. skilgreiningu í gr. 12.2.6.

Starfsmaður ávinnur sér tveggja vikna leyfi á hverju ári. Þó getur uppsafnaður réttur aldrei orðið meiri en 6 mánuðir og greiðis ekki út við starfslok. Heimilr er að veita skemmri eða lengri námsleyfi á skemmra eða lengra árabili. Heimilt er að greiða ferða- og dvalarkostnað samkvæmt 5. kafla.

Reykjavíkurborg

Endurmenntun, framhaldsnám

Starfsmaður viðheldur menntun sinni og starfsreynslu með þátttöku á ráðstefnum, endurmenntunarnámskeiðum og/eða viðurkenndu framhaldsnámi.

Starfsmaður, sem unnið hefur í 4 ár hjá vinnuveitanda og stunda framhaldsnám með samþykki stofnunar heldur launum skv. gr. 1.1.1 og fær greiddan ferða- og dvalarkostnað skv. 5 kafla. Lengd leyfis samkvæmt þessu er allt að 3 mánuðir á 6 ára fresti. Heimilt er að veita skemmri eða lengri námsleyfi á skemmra eða lengra árabili.

Sveitarfélög

Launað námsleyfi

Heimilt er að veita starfsmanni, sem starfað hefur skv. þessum samningi samfellt í 5 ár hið skemmsta, launað leyfi til þess að stunda viðurkennt framhaldsnám. Leyfi skv. framanskráðu er ekki veitt til almenns framhaldsnáms, en er miðað við að viðkomandi afli sér viðbótarþekkingar sem nýtist á sérsviði hans í starfi hjá stofnuninni.

Heimilt er að veita launað leyfi til viðurkennds framhaldsnáms til 3ja mánaða hið lengsta á hverjum 5 árum. Í sérstökum tilvikum er heimilt að veita lengra leyfi sjaldnar eða í allt að 6 mánuði á hverjum 10 árum. Einnig er heimilt að veita starfsmönnum, sem ákvæði þetta tekur til, launað námsleyfi tíðar en að framan greinir, en þó skemur hverju sinni og eigi umfram 1 mánuð á hverjum 20 mánuðum, enda leiði ekki af því aukinn kostnaður.

Laun í námsleyfi miðast við föst laun, vaktaálag og meðaltal starfshlutfalls síðustu 3 ár samkvæmt ráðningarsamningi viðkomandi starfsmanns.

Umsóknir um námsleyfi skulu berast til vinnuveitanda sem metur hvort umsókn fellur undir reglur þessar.

Heimilt er að binda launað námsleyfi skilyrði um áframhaldandi starf hjá sveitarfélaginu að námi loknu.

SA

Fræðslumál

Starfsmenn eiga þess kost að sækja fræðslu- og þjálfunarnámskeið til að viðhalda faglegri þekkingu sinni í samræmi við heildarmarkmið fyrirtækis. Fyrirtækið skal í samráði við starfsmann fylgjast með endurmenntunarþörf hans. Starfsmaður getur haft frumkvæði að því að finna námskeið, fræðslu og/eða ráðstefnur sem henta starfseminni og starfi hans. Hann getur einnig óskað eftir námsleyfi. Mat fyrirtækisins ræður úrslitum um hvaða námskeið eða ráðstefnur verða fyrir valinu og hvort forsendur séu fyrir veitingu námsleyfis. Starfsmaður heldur reglubundnum launum á meðan námskeiði stendur og fær greiddan útlagðan kostnað, nema um annað sé sérstaklega samið.

Orkuveita Reykjavíkur

Starfs- og endurmenntun á vegum OR

Starfsmenn skulu eiga kost á fræðslu og símenntun til að auka við þekkingu sína og faglega hæfni. Gert er ráð fyrir að OR setji fram áætlun um starfsþróun fyrir alla starfsmenn í starfsáætlun sinni í starfsmannamálum til að tryggja eðlilega starfsþróun og símenntun starfsmanna í samræmi við starfsmannastefnu OR.

Þeir starfsmenn, sem sækja fræðslu- eða þjálfunarnámskeið samkvæmt beiðni OR, skulu halda reglubundnum launum á meðan og fá greiddan kostnað samkvæmt 5. kafla.

Rarik

Starfsþjálfun á vegum fyrirtækisins

Starfsmenn skulu sækja fræðslu- og þjálfunarnámskeið samkvæmt beiðni RARIK ohf. og halda þá reglubundnum launum á meðan og fá greiddan kostnað samkvæmt ákvæðum 5. kafla. Ef námskeið er haldið utan reglubundins vinnutíma starfsmanns skal greiða námskeiðsstundir með tímakaupi, dagvinnu eða yfirvinnukaupi eftir því sem við á.

Símenntun

Starfsmenn eiga þess kost að sækja fræðslu- og þjálfunarnámskeið til að viðhalda faglegri þekkingu sinni í samræmi við heildarmarkmið RARIK ohf. Fyrirtækið skal í samráði við starfsmann fylgjast með endurmenntunarþörf hans. Starfsmaður getur haft frumkvæði að því að finna námskeið, fræðslu og/eða ráðstefnur sem henta starfseminni og starfi hans. Mat fyrirtækisins ræður úrslitum um hvaða námskeið eða ráðstefnur verða fyrir valinu. Starfsmaður heldur reglubundnum launum á meðan á námi stendur og fær greiddan kostnað skv. ákvæðum 5. kafla, nema um annað sé sérstaklega samið.

Share This