Samkomulag var gert um breytingu á kjarasamningi SA og nokkurra aðildarfélaga BHM fyrr í dag. Með breytingunum eru vinnutímaákvæði kjarasamningsins aðlöguð að vinnutímaákvæðum kjarasamninga skrifstofufólks á almennum vinnumarkaði en í framkvæmd hefur dagvinnutími víða verið samræmdur milli þeirra starfsmanna sem starfa eftir kjarasamningi þessum og þeirra sem starfa eftir kjarasamningum skrifstofufólks.

Vinnutímastytting kemur einungis til framkvæmda þar sem virkur vinnutími (sá tími sem starfsmaður er við störf) er lengri en 35,5 stundir að jafnaði á viku. Neysluhlé og önnur hlé frá vinnu vegna ýmiss konar persónulegra erinda teljast ekki til virks vinnutíma í þessu sambandi. Vinnutímastyttingin á að koma til framkvæmda, þar sem við á, eigi síðar en 1. mars nk.

Margir stjórnendur og sérfræðingar hafa alla jafna töluvert svigrúm til að skipuleggja vinnutíma sinn og eru fyrst og fremst ráðnir til að sinna tilteknum verkefnum og fá fyrir það föst mánaðarlaun. Yfirvinna er oft innifalin í mánaðarlaunum og/eða vinnutími sveigjanlegur. Rétt er að samtal eigi sér stað þar sem svo háttar til um bætta nýtingu vinnutíma gegn styttri viðveru svo samræma megi betur atvinnu- og fjölskyldulíf.

Eftirtalin sátu í viðræðunefnd félaganna:

 

Maríanna H. Helgadóttir, formaður

Guðfinnur Þór Newman, varaformaður

Júlíana Guðmundsdóttir, lögfræðingur

 

Með nefndinni starfaði hagfræðingur BHM, Vilhjálmur Hilmarsson.

 

Aðildarfélög innan BHM sem eiga aðild að þessum samningi eru:

 

Dýralæknafélag Íslands

Félag íslenskra félagsvísindamanna

Félags íslenskra náttúrufræðinga

Félag lífeindafræðinga

Félag sjúkraþjálfara

Félagsráðgjafafélag Íslands

Fræðagarður

Iðjuþjálfafélag Íslands

Kjarafélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga

Ljósmæðrafélag Íslands

Sálfræðingafélag Íslands

Stéttarfélag bókasafns- og upplýsingafræðinga

Stéttarfélag lögfræðinga

Þroskaþjálfafélag Íslands

 

Frekari kynning verður á samningnum í janúar.

Share This