Ákveðið var í lok samningafundar KVH og ríkisins í morgun, 30. sept, að halda viðræðum áfram næstu daga. Mál hafa nokkuð skýrst og tillögur KVH áfram til umræðu. Var því fundi frestað en ekki slitið eins og venja er, og gera menn sér vonir um að hægt verði að ná samkomulagi fljótlega, sem viðunandi megi teljast. Þá var yfirlýst af hálfu ríkisins að þau loforð um gildistíma /afturvirkni sem SNR hefur áður sett fram, haldist óbreytt.
KVH hefur því ásamt fimm öðrum stéttarfélögum háskólamanna ákveðið að halda viðræðum við SNR áfram næstu daga, en stéttarfélög prófessora, háskólakennara, verkfræðinga, tæknifræðinga og tölvunarfræðinga eru öll í svipaðri stöðu. Á sama tíma eiga sér stað mikilvægar viðræður helstu aðila vinnumarkaðarins og ríkisins, með aðkomu ríkissáttasemjara, til að tryggja stöðuleika á vinnumarkaði næstu misserin og koma í veg fyrir hrinu verkfalla og uppsagna kjarasamninga. Vonir standa til að þær viðræður skili árangri.