Í kjarakönnun BHM/KVH var spurt um margt fleira en mánaðarlaun og heildarlaun. Til að mynda kemur fram að meðaltal vinnustunda KVH félaga var rúmar 43 stundir á viku árið 2012 eða nokkru meira en meðaltal BHM sem var 42 stundir. Karlar í KVH unnu að jafnaði 44,7 klst á viku, en konur 42 klst.
Um 89% félagsmanna KVH töldu sig hafa átt rétt á námsleyfi á síðustu 12 mánuðum, en aðeins um 3% sóttu um það leyfi og fengu. Hér er því augljóslega ástæða fyrir félagsmenn að huga að þessum réttindum sínum og nýta þau miklu betur.
Þegar spurt var um starfsánægju reyndust um 70% félaga KVH vera mjög eða frekar ánægðir í starfi, en 9% fremur eða mjög óánægðir. Hæsta hlutfall þeirra sem voru óánægðir var hjá Reykjavíkurborg og öðrum sveitarfélögum.
Um 27% félagsmanna töldu líklegt að þeir myndu af alvöru leita að nýju starfi á næstu 12 mánuðum og voru yngstu svarendurnir líklegri til þess en aðrir.
Flestir eða 87% félagsmanna KVH fengu laun sín eftirágreidd. Þá höfðu um 36% félagsmanna aksturssamning eða ökutækjastyrk.
Alls voru um 92% félagsmanna KVH með skriflega ráðningarsamninga, en um 8% höfðu enga slíka, einkum af almenna vinnumarkaðinum.