Stjórn Sjúkrasjóðs BHM hefur samþykkt nýjar úthlutunarreglur fyrir sjóðinn og taka þær gildi 1. nóvember nk. Á undanförnum misserum hafa útgjöld sjóðsins vegna sjúkradagpeninga aukist verulega en tekjur hafa ekki vaxið að sama skapi. Þetta veldur því að eiginfjárstaða sjóðsins er lakari en æskilegt væri. Að mati stjórnar sjóðsins er nauðsynlegt að bregðast við þróuninni til að tryggja rekstur sjóðsins.
Helstu breytingar miðað við núgildandi reglur verða sem hér segir:
- Hámarkstími sem sjóðfélagi getur fengið greidda sjúkradagpeninga verður fjórir mánuðir með möguleika á framlengingu um einn mánuð í undantekningartilvikum og við sérstakar aðstæður. Hámarkstíminn er nú níu mánuðir.
- Upphæð sjúkradagpeninga verður 80% af grunni inngreiðslna. Nú er miðað við 70%.
- Sjóðurinn mun greiða sjúkradagpeninga í tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda barna. Nú eru greiddir þrír mánuðir í slíkum tilvikum.
Í nýju reglunum er bráðabirgðaákvæði sem tekur sérstaklega á stöðu sjóðfélaga sem hafa fengið umsóknir sínar um sjúkradagpeninga samþykktar á árinu og eru að þiggja slíkar greiðslur við gildistöku reglnanna.
Stjórn Sjúkrasjóðs BHM væntir þess að framangreindar breytingar muni duga til að koma rekstri sjóðsins í jafnvægi. Engu að síður mun stjórnin fylgjast grannt með framvindu mála á næstunni og bregðast við ef sýnt þykir að gera verði frekari ráðstafanir til að tryggja reksturinn.