BHM efnir til málþings um stöðu sjálfstætt starfandi háskólafólks fimmtudaginn 30. janúar nk. á Grand hótel Reykjavík. Yfirskrift málþingsins er „Lífið í harkinu – sjálfstætt starfandi háskólafólk í breyttum heimi“. Það er opið öllum sem áhuga hafa, án endurgjalds og meðan húsrúm leyfir, en skrá þarf þátttöku fyrirfram á vef BHM.
Í Evrópu og víðar færist í vöxt að háskólamenntað fólk sé sjálfstætt starfandi eða sé bæði í föstum störfum og vinni sem verktakar. Þróunin helst í hendur við breytingar á vinnumarkaði sem kenndar hafa verið við harkhagkerfið (e. gig economy). Í stuttu máli felast þessar breytingar í því að fyrirtæki og stofnanir velja fremur að útvista verkefnum en ráða fasta starfsmenn til að sinna þeim. Ný tækni hefur auðveldað útvistun en hún fer í auknum mæli fram gegnum svokallaða netvanga (e. digital platforms) sem eru sérhæfðar vefsíður sem tengja saman kaupendur og seljendur þjónustu.
Víðast hvar er þó ráðningarsamband enn grundvöllur vinnumarkaðstengdra réttinda sem ýmist eru bundin í lögum eða kjarasamningum. Þessi réttindi ná yfirleitt ekki nema að mjög takmörkuðu leyti til fólks sem er sjálfstætt starfandi. Í nágrannalöndunum hafa stéttarfélög lýst áhyggjum af stöðu fólks sem vinnur í harkhagkerfinu og gripið til ráðstafana til að bæta réttindi þess.
En hver er staðan hér á landi?
Fer sjálfstætt starfandi háskólafólki fjölgandi eða fækkandi?
Hvaða breytingar þarf að gera á lögum og reglum til að bæta stöðu þessa hóps?
Hvernig geta stéttarfélög háskólafólks bætt þjónustu sína við sjálfstætt starfandi félagsmenn?
Þetta eru meðal spurninga sem ræddar verða á málþinginu 30. janúar.
Dagskrá
13:00 Setning
Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM
13:10 Vinnumarkaður framtíðarinnar – hvaða breytingar eru framundan?
Katrín Ólafsdóttir, lektor við HR
13:40 How can unions support and represent the self employed?
Kirstine Baloti, sérfræðingur HK í Danmörku
14:15 Kaffihlé
14:40 Lagaumhverfið – er breytinga þörf?
Andri Valur Ívarsson, lögmaður BHM
15:10 Pallborðsumræður
15:50 Samantekt fundarstjóra
16:00 Málþingi slitið
Fundarstjóri er Gunnlaugur Már Briem, varaformaður Félags sjúkraþjálfara.
Málþingið er opið öllum sem áhuga hafa, án endurgjalds og meðan húsrúm leyfir, en skrá þarf þátttöku fyrirfram á vef BHM.
Smellið hér til að skrá þátttöku.