Síðast liðinn mánudag, 19. september, undirrituðu BHM, BSRB og KÍ samkomulag við ríki og sveitarfélög um nýja skipan lífeyrismála þeirra félagsmanna sem eiga aðild að A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR) og Brú Lífeyrissjóði starfsmanna sveitarfélaga (áður LSS). Samkomulagið felur m.a. í sér lengingu lífeyristökualdurs úr 65 árum í 67 ár, aldurstengingu réttinda og afnám bakábyrgðar, gegn bótum fyrir þær skerðingar, vegna þeirra sem nú eiga réttindi í sjóðunum.
Kjarafélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga hefur fylgst með þessum viðræðum og ítrekað gert athugasemdir við vinnubrögð, drög að samkomulagi og drög að frumvarpi sem er í smíðum. Við atkvæðagreiðslu um samkomulagið á formannafundi BHM greiddi KVH atkvæði gegn samþykkt þessa samkomulags. Í bókun formanns KVH á fundinum segir m.a.:
„KVH hefur áður lýst yfir stuðningi við þau meginmarkmið að koma á samræmdu og sjálfbæru lífeyriskerfi til framtíðar fyrir alla landsmenn, með samræmingu réttinda, fullum bótum fyrir skerðingar og um leið jöfnun launa háskólamanna á almennum og opinberum vinnumarkaði.
KVH telur hins vegar að fyrirliggjandi drög að samkomulagi uppfylli ekki þau skilyrði sem setja verður. Málið er fjarri því að vera nægilega vel undirbúið og unnið, fjölmörgum spurningum um mikilvæga hagsmuni er ósvarað og óvissa því töluverð. Þá verða það að teljast ámælisverð vinnubrögð að reyna að knýja fram niðurstöðu í málinu í miklum flýti, þegar það hefur ekki verið rætt til hlítar eða kynnt almennum félagsmönnum. Í ljósi þessa telur formaður og stjórn KVH það vera óábyrgt að samþykkja drögin og teljum okkur í raun ekki hafa umboð okkar umbjóðenda til þess. Hagsmunirnir sem hér eru undir eru ekki minni en þeir sem tekist er á um í kjarasamningum og því væri eðlilegt að leita álits félagsmanna aðildarfélaga BHM áður en gengið væri frá samkomulagi sem varðar svo mikla hagsmuni.„
Sérstaklega gagnrýndi KVH orðalag 7. gr. samkomulagsins um samkeppnishæfni og jöfnun launa milli markaða, en það er mjög almennt orðað og óljóst. Sú grein samkomulagsins varðar bæði hagsmuni núverandi sjóðfélaga og framtíðar sjóðfélaga. Sem kunnugt er hafa meðallaun háskólamanna hjá hinu opinbera gjarnan verið lægri en á almennum markaði (í sambærilegum störfum) og það réttlætt hingað til með betri lífeyriskjörum opinberra starfsmanna.
KVH lagði því áherslu á að vinnu yrði haldið áfram við útfærslu á drögum að samkomulagi þar sem spurningum um forsendur, útreikninga og óvissu yrði svarað svo hægt væri að taka upplýsta afstöðu til málsins eftir kynningu til félagsmanna. Því miður var það ekki gert.
Félagsmenn geta kynnt sér texta samkomulagsins á vef fjármálaráðuneytisins: https://www.fjarmalaraduneyti.is/media/frettatengt2016/Samkomulag-um-nytt-samraemt-lifeyriskerfi.pdf
og einnig pistil formanns BHM um málið: http://www.bhm.is/frettir/mikilvaegum-afanga-nad-en-morg-verkefni-bida