Flest aðildarfélög BHM þar á meðal KVH ákváðu fyrir skömmu að hefja sameiginlegar könnunarviðræður við opinbera viðsemjendur, þ.e. ríki, Samband ísl. sveitarfélaga og Reykjavíkurborg, um þau meginatriði í kröfugerð félaganna sem sameiginleg eru. Þriggja manna viðræðunefnd hefur umboð stéttarfélaganna og hana skipa formaður BHM, framkvæmdastjóri BHM og lögmaður BHM. Viðræður eru hafnar en kjarasamningar við þessa viðsemjendur eru lausir um næstu mánaðarmót. Samhliða munu samninganefndir aðildarfélaga BHM ræða við þessa viðsemjendur um sérkröfur sínar.
Undirbúningur viðræðna KVH við fjóra viðsemjendur aðra er sömuleiðis hafinn, en samningar KVH eru nú lausir við Orkuveitu Reykjavíkur, Rarik, RUV og Samtök fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu (SFH).
Eins og þeir félagsmenn KVH þekkja sem starfa á almennum vinnumarkaði, þá semja félagsmenn sjálfir um laun sín í ráðningarsamningi, en KVH/BHM semja við SA um önnur réttinda- og kjaramál í miðlægum kjarasamningi. Núgildandi kjarasamningur aðildarfélaga BHM við SA er frá 1.10.2011 og hefur honum ekki verið sagt upp, en búast má við endurskoðun á honum þegar samningamál fara að skýrast betur. Talsverð óvissa ríkir nú um framhald kjarasamningaviðræðna almennt í kjölfar þess að meirihluti aðildarfélaga ASÍ höfnuðu nýgerðum kjarasamningum við SA.