Stjórn Norræna verkalýðssambandsins (Nordens fackliga samorganisation – NFS) samþykkti á fundi sínum í morgun umsókn Bandalags háskólamanna um aðild að sambandinu. Þar með bætist BHM í hóp 15 heildarsamtaka launafólks frá öllum Norðurlöndunum með um 9 milljónir félagsmanna innan sinna raða, en hlutverk NFS er að stuðla að nánu samstarfi milli aðildarsamtaka þess og standa að sameiginlegri hagsmunagæslu. Með aðildinni fær BHM möguleika á að fylgjast með og hafa áhrif á þróun vinnumarkaðar á Norðurlöndum og í Evrópu.
Norræna verkalýðssambandið var stofnað árið 1972 og er samstarfsvettvangur 16 heildarsamtaka launafólks frá Danmörku, Finnlandi, Færeyjum, Íslandi, Noregi og Svíþjóð. Þrenn íslensk heildarsamtök eiga aðild að sambandinu: ASÍ, BHM og BSRB. NFS er viðurkenndur fulltrúi norræns launafólks á vettvangi Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar og gegnir ráðgjafarhlutverki gagnvart þessum aðilum. Þá hafa samtök innan NFS víðtækt samráð og samstarf er varðar málefni evrópsks vinnumarkaðar og á vettvangi Evrópusambands verkalýðsfélaga (ETUC). Enn fremur tekur NFS þátt í samstarfi við verklýðshreyfingu í Eystrasaltsríkjunum og gegnir samræmingarhlutverki gagnvart Alþjóðavinnumálastofnuninni (ILO), Alþjóðasambandi verkalýðsfélaga (ITUC) og Ráðgjafarnefnd verkalýðshreyfingarinnar hjá Efnahags- og framfarastofnuninni (TUAC). Samhliða aðildinni að NFS hefur BHM sótt um aðild að ETUC, ITUC og TUAC.