Samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands hækkuðu laun á íslenskum vinnumarkaði um 7,4% milli áranna 2011 og 2012, miðað við ársmeðaltal vísitölu launa. Þá hækkuðu laun á almennum vinnumarkaði um 7,8% að meðaltali, en laun opinberra starfsmanna um 6,6%.
Í kjarasamningum aðila vinnumarkaðarins frá árinu 2011 var kveðið á um hækkun launa um 3,5% á fyrsta ársfjórðungi 2012. Í sömu samningum var kveðið á um 50.000 króna eingreiðslu sem kom til hækkunar á vísitölu launa á öðrum ársfjórðungi 2011. Áhrif vegna eingreiðslu, orlofs- og desemberuppbótar gætir í vísitölu launa árið 2012.
Vísitala launa endurspeglar þróun reglulegra launa og er gefin út ársfjórðungslega. Þetta og fleira má lesa um í Hagtíðindum, Hagstofu Íslands, nánar tiltekið undir Laun, tekjur og vinnumarkaður.