BHM gagnrýnir Reykjavíkurborg fyrir að hafa ekki haft samráð við bandalagið og aðildarfélög þess við breytingar á launasamningum við starfsmenn borgarinnar. Bandalagið krefst þess að breytingarnar verði dregnar til baka.
Félagsmönnum aðildarfélaga BHM sem starfa hjá Reykjavíkurborg og hafa samið um föst laun var nýlega tilkynnt að launafyrirkomulagi þeirra yrði breytt. Fastlaunasamningar yrðu færðir yfir í annað form á grundvelli reglna sem tóku gildi um síðustu áramót og byggja á ákvæði í kjarsamningum BHM-félaganna og Reykjavíkurborgar.
Í bréfi sem formaður BHM hefur sent borgarstjóra kemur fram að samkvæmt bókun í kjarasamningum sé borgaryfirvöldum skylt að hafa samráð við BHM-félögin um beitingu þessa ákvæðis. Þetta hafi ekki verið gert og er það gagnrýnt í bréfinu. Einnig kemur fram að BHM og aðildarfélögin geri ýmsar athugasemdir við fyrrnefndar reglur og telji að í þeim sé gengið lengra en kjarasamningar heimila.
Í niðurlagi bréfsins segir orðrétt:
Fyrir hönd aðildarfélaga BHM er gerð krafa um að færsla fastlaunasamninga félagsmanna hjá Reykjavíkurborg yfir í önnur laun verði dregin til baka og staðið að málum í samræmi við ákvæði kjarasamninga, þ.e. með kynningu og samtali í samstarfsnefndir aðila.